Mál að linni

Enn væla útflytjendur og ferðaþjónustufólk yfir styrkingu krónunnar. Steininn tekur þó úr þegar kveinað er yfir stöðunni gagnvart sterlingspundinu, enda er hún ekki okkur að kenna heldur fyrst og fremst ákvörðun Breta um að ganga úr ESB. Við þá ákvörðun snarféll pundið gagnvart flestum gjaldmiðlum, meira að segja krónunni okkar litlu og leiðinlegu. Ég skil svo sem útflytjendurna vel, þeir vilja fá meira fyrir afurðirnar, þó að reynslan ætti að kenna þeim að árangursríkara sé að hagræða en væla. En eigendur fyrirtækja í ferðaþjónustu ættu bara að skammast sín. Verðlagið í þeim geira er svo brjálæðislegt að engu tali tekur. Venjulegur Íslendingur hefur ekki lengur efni á því að gista á sæmilegu hóteli eða snæða á skítsæmilegum veitingastað, hvað þá að fara í Bláa lónið. Græðgin er með ólíkindum. Leggur Helgi Már Barðason hér með til að allir þeir, sem hag hafa af innlendum og erlendum ferðamönnum, taki sig taki og rífi niður verðið þannig að venjulegt fólk hafi efni á því að ferðast um Ísland, gista þar og éta. Því fyrr, þeim mun betra.


Bloggfærslur 10. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband