Höftin og afinn

Ég minnist fréttarinnar um afann, fyrir nokkrum árum, sem ætlaði að senda barnabörnum sínum í útlöndum svolitla peninga í afmælisgjöf, en gat það ekki þar sem hann gat ekki framvísað farseðli.

Ég botna ekkert í vanþakklæti fólks, nú þegar loksins er verið að losa almennilega um höftin. Nú getum við senn fengið evrur og dollara í bönkum án þess að ganga í gegnum hálfkommúníska farseðlaþvælu. Ég skildi reyndar aldrei af hverju Seðlabankinn var að eltast við þúsundkalla almennings með þessum hætti, en er afar feginn að þessu skuli loksins vera að ljúka.

Margir horfa bara yfir sig hneykslaðir á eitthvert ákvæði um að einstaklingur megi aðeins kaupa eina fasteign á ári erlendis.

Þetta mega flestallir Evrópubúar gera, aðrir en Íslendingar. Er ekki kominn tími til að fólk geti sest að erlendis án alltof mikils skrifræðis, undanþágukjaftæðis og annars þvættings? Auðvitað kaupa ekki margir fleiri en eina fasteign á ári. En einhver verður reglan að vera.

Ég hlakka til að geta aftur farið í banka á Íslandi og fengið skikkanlega mynt, án fyrirhafnar.

Auk þess legg ég til að íslenska krónan verði lögð niður.


Bloggfærslur 18. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband