6.3.2009 | 20:56
Fylki?
28.2.2009 | 18:50
Orðabrengl?
Ég var spurður að því fyrir skemmstu hvort ég héldi að stjórnmálamenn væru þessa dagana að rugla saman hugtökunum endurnýjun og endurnýting.
Mér varð svarafátt.
22.2.2009 | 17:57
Góður Sölvi
Mér fannst nýr spjallþáttur Sölva Tryggvasonar á Skjá einum fara vel af stað. Sölvi náði góðu sambandi við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og það sem hún hafði að segja var mjög athyglisvert. Ég gerði mér enga grein fyrir að hún og fjölskylda hennar hefðu orðið svona illa fyrir barðinu á fólki sem hefur ekkert betra að gera en spinna gróusögur og kasta skít. En auðvitað hefði maður mátt vita það. Þetta er kona sem stendur í sviðsljósinu og því miður er enginn skortur á skítseiðum í þjóðfélaginu. Ég vissi heldur ekki um veikindi dóttur hennar. Svona lifir maður í vernduðum heimi. Líklega er þetta af því að ég les ekki skítkastsblogg og er ekki félagi í neinum kjaftaklúbbi.
Þorgerður nefndi einmitt að það væru ekki bara stjórnmálamennirnir og auðmennirnir sem þyrftu að taka sig á og gerbreyta um aðferðir í takt við kröfurnar sem óma þessa dagana. Fjölmiðlarnir bæru líka þunga ábyrgð og ekki síður almenningur. Fólkið sem skreytir blogg sitt stóryrðum og níði, jafnvel í skjóli nafnleyndar, smjattar á lygum og sögusögnum í saumaklúbbum, hrópar ókvæðisorð og blótsyrði að ráðamönnum og skemmir jafnvel eigur annarra verður að hætta því og líta í eigin barm. Líka við hin, meðaljónarnir í landinu. Við þurfum að gæta vel að því hvað við segjum og gerum. Annars er hætt við að neikvæðni, dónaskapur, rætni, ofbeldi og hvers kyns bestíalítet verði eitt helsta einkenni hins nýja Íslands, sem svo margir sjá nú í hillingum.
22.2.2009 | 00:14
Tvær ómissandi bækur
Ég er hrifinn af Facebook. Hún hefur að vísu ýmsa ókosti, er óttalegur tímaþjófur og þar úir og grúir af alls kyns drasli sem ævinlega er verið að skora á mann að senda vinum sínum eða þiggja frá þeim. En kostirnir eru fleiri. Ég hef til dæmis náð sambandi við urmul af gömlum skólafélögum, fyrrverandi nemendum, gömlum nágrönnum og ættingjum, nánum sem fjarlægum. Með hjálp bókanna tveggja, Íslendingabókar og Fésbókar, hefur mér tekist að hafa uppi á fjölda ættingja minna og það hefur veitt mér ómælda ánægju. Í kvöld var ég t.d. að spjalla við unga og fallega frænku mína austur á landi. Við þekktumst ekkert fyrir, en það gladdi mitt gamla hjarta hvað hún gaf sér góðan tíma til að spjalla og var áhugasöm um skyldleikann og ættfólk okkar.
Ég var einmitt (loksins) að lesa litla bók eftir frænda minn, Óskar Árna Óskarsson, sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þar segir hann m.a. frá ömmu sinni, Stefaníu, sem var systir Önnu, ömmu minnar. Hann ræðir líka nokkuð um ömmubróður okkar, Magnús Stefánsson skáld, og minnist á samskipti Stefaníu og Magnúsar við systurina Ragnheiði, sem fluttist til Kanada og lést þar fyrir allmörgum árum.
Amma átti einn bróður, fjórar alsystur og eina hálfsystur. Systkinin ólust ekki upp saman, kjörin voru kröpp, langamma varð snemma ekkja og neyddist til að senda dæturnar í fóstur hingað og þangað. Magnús var yngstur og fylgdi mömmu sinni. Sambandið milli systkinanna var því stopult og stundum lítið.
Amma hafði einna mest og nánust samskipti við Ragnheiði, systurina sem fluttist vestur um haf. Þær skrifuðust á alla tíð og við, afkomendur þeirra, höfum síðan haldið bréfaskiptunum áfram. Í sumar er ég einmitt að fara með fjölskyldunni til Bandaríkjanna og Kanada, m.a. til að heimsækja afkomendur Ragnheiðar og fjölskyldur þeirra. Það verður óskaplega gaman, það er ég viss um. Kannski verður næsta skref að heimsækja afkomendur hinna ömmusystranna minna? Sumir búa hérna í bænum en ég þekki þá ekki einu sinni í sjón ...
21.2.2009 | 18:46
Nýi miðbærinn
Mikið vona ég að afturhaldssömu fólki takist ekki að koma í veg fyrir að miðbærinn á Akureyri öðlist líf að nýju. Mér líst afar vel á hugmyndirnar um að "snúa" miðbænum þannig að birtan og skjólið aukist og þar verði gott að vera, sumar sem vetur.
Síkið í miðbænum er snilldarhugmynd og fellur vel inn í skipulagið eins og það lítur út á teikningum. Og dásamlegt að Ráðhústorgið eigi aftur að verða grænt.
En sumir vilja engu breyta. Dæma allar breytingar fyrirfram ómögulegar. Það má hvergi byggja hús, reisa brú, breyta strætum, rífa skúra eða gera bæinn á neinn hátt byggilegri en nú er.
Mikið vona ég að framsýnin fái að ráða ferðinni í bænum mínum í þetta skipti þó að úrtölufólkið eigi áreiðanlega eftir að ybba gogg enn um sinn.
16.2.2009 | 16:21
Frábær fyrirsögn

![]() |
Davíð býður sig fram í forvali VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.2.2009 | 15:34
Páll fer með rangt mál
"Það langar ÖLLUM í Júróvisjon," sagði hinn síungi, síglaði og sísperrti söngvari Páll Óskar með mikilli áherslu í sjónvarpsþætti í gærkvöldi.
Það er rangt.
MÉR langar ekki.
Spáðíessu.
14.2.2009 | 23:24
Það var og
Jæja, þá er ljóst hvaða lag fer til Rússíá í söngvakeppnina. Ég tek undir það að vart er hægt að hugsa sér glæsilegri fulltrúa en Jóhönnu Guðrúnu. Gullfalleg stúlka með afburða söngrödd.
Hins vegar finnst mér lagið frekar óspennandi. Það er eins og ég hafi heyrt það þúsund sinnum áður í mismunandi útgáfum - gott ef Celine Dion hefur ekki flutt nokkrar útgáfur af því.
Svo er spurning hvort vegur þyngra þegar á hólminn er komið, söngkonan eða tónsmíðin. Eða skiptir umgjörðin e.t.v. mestu?
13.2.2009 | 23:59
Auk þess legg ég til ...
10.2.2009 | 11:23