Taugar

Margt fer í taugarnar á mér. Aðallega fer það þó í taugarnar á mér hversu margt fer í taugarnar á mér. Ég stekk oft upp á nef mér eða byrja að þusa og tuða yfir alls konar smámunum, oft hlutum sem ég fæ ekki breytt. Veðrið fer til dæmis oft í taugarnar á mér. Stundum finnst mér þetta land langt fyrir utan mörk hins byggilega heims. Og þá læt ég gremju mína bitna á einhverjum sem ekkert hefur til saka unnið. Það er hábölvað að fara svona í taugarnar á sjálfum sér. Eins og ég er nú vel gerður piltur að mörgu leyti! Ætli þetta endi ekki bara með einhvers konar sjálfsofnæmi?

Ég er óskaplega heppinn maður í lífinu. Ég á frábæra konu, dásamleg börn, fullt af ættingjum og góðum kunningjum og fáa en afskaplega góða og trygga vini. Ég bý í góðu húsnæði, á ágætan bíl og í bænum mínum fæ ég alla þá þjónustu sem ég get mögulega óskað mér (það er helst að vanti góða HMV eða Virgin-búð!). Ég skil ekki hvers vegna ég leyfi lífinu og tilverunni stundum að fara svona í taugarnar á mér. Get ég afsakað mig með því að ég sé bara svona "mannlegur"? Það er engin ástæða til að kvarta þótt hlutirnir gangi ekki alltaf og ævinlega eins og ég hefði kosið. Það góða við þetta er að ég átta mig alltaf um síðir, eins og núna, og leggst þá á þakkarbæn fyrir hvað ég er ljónheppinn maður og hvað hlutskipti mitt er einstaklega gott. Ég vona að því gleymi ég aldrei.


Lán

Eitthvert mesta lán sem mig hefur hent á síðustu árum var að fá að stjórna litlum útvarpsþætti á Rás 1 og spila þar og kynna tónlist í eldri kantinum. Viðbrögðin hafa verið jákvæð og afskaplega uppörvandi en það dýrmætasta er allt það frábæra efni sem ég hef uppgötvað í grúski mínu þegar ég hef verið að afla mér efnis og upplýsinga. Nú er ég farinn að spila í græjunum heima og í bílnum ýmsa stórkostlega listamenn - margir þeirra hafa verið álitnir í hópi minni spámanna eða jafnvel alls engir spámenn - sem ég hafði annaðhvort aldrei heyrt nefnda eða aldrei heyrt neitt í. Suma - og það er kannski verst en jafnframt lærdómsríkast - hafði ég einhvern tíma í fyrndinni dæmt ómögulega og hundleiðinlega. Svo lengi lærir sem lifir. Ég veit ekki hvað þessir útvarpsþættir fá að heyrast lengi, en þetta hefur verið óskaplega gaman og ekki spillir það ef hlustendur hafa eitthvert gaman af þessu líka.trombone

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband