Akureyri vikublað og "eineltisbrandarar" Davíðs

Jæja. Þar kom að því að ritstjóri Akureyrar - vikublaðs, gæti ekki setið á sér lengur og sýndi sitt pólitíska andlit. Ég hef reyndar verið að bíða eftir því alveg síðan fyrsta tölublaðið kom og raunar dáðst að því hve lengi þessi rammpólitíski maður fór svo vel með stjórnmálaskoðanir sínar að maður varð þeirra varla var.

En í nýjasta tölublaðinu stendur eftirfarandi klausa:

"Lof vikunnar fá landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrir frumlega kímnigáfu. Hvað er hægt annað að segja um hóp fólks sem leggst á bakið í hláturskrampaköstum yfir eineltisbröndurum mannsins sem erlendir fjölmiðlar setja í 19. sæti yfir helstu orsakavalda heimskreppunnar?"

Nú vill svo til að ég botnaði lítið í þessum hlátursköstum. Mér þóttu brandarar Davíðs, þeir sem ég heyrði í sjónvarpinu, ekki sérlega fyndnir og raunar hálf-ósmekklegir. En ennþá ósmekklegra finnst mér að nota orðið "einelti" þó að Davíð svari endrum og sinnum fyrir sig. En ef við leyfum okkur að nota það orð frjálslega að sinni mætti segja að fáir hefði fengið stærri skammt af pólitísku einelti á síðari árum en hann - nema kannski Geir Haarde. Ætli ekki megi grafa upp, með lítilli fyrirhöfn, nokkra "eineltisbrandara" úr safni Steingríms Joð, Bjarnar Vals og Marðar Árnasonar, svo nokkrir séu nefndir. En kannski heitir það ekki "einelti" ef fórnarlambið er "á rangri hillu" í pólitík?

Og að Davíð skuli vera talinn einn af helstu orsakavöldum heimskreppunnar er auðvitað stórkostlegasti brandarinn af þessu öllu saman. Skyldi hann hafa verið fyrir ofan seðlabankastjóra Tonga eða forsætisráðherra Gíneu-Bissá? Mikill er máttur okkar Íslendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband