12.4.2007 | 20:05
Umferð
Umferðin á Íslandi er eitt af mínum hjartans málum. Kannski vegna þess að hún er óútreiknanleg, vitlaus, geggjuð; framkallar reiði, hneykslan, undrun, uppgjöf... Áðan beið ég á biðskyldu við gatnamót eftir jeppa sem kom á fljúgandi ferð eftir aðalbrautinni... svo beygði blessuð konan á jeppanum að sjálfsögðu inn í götuna mína. Ég hefði sem sagt ekki þurft að bíða ef konan hefði gefið stefnuljós. Ekki seinkaði mér mikið við þetta, enda lá mér ekki á, en mikið déskoti var freistandi að flauta á kerlu eða jafnvel senda henni fingurinn... Ég er bara svo ári vel upp alinn, að það hefði mér aldrei flogið í hug í neinni alvöru!
Víkverji Morgunblaðsins gerði umferðina að umtalsefni nýlega og sagði að leyndin sem hvíldi yfir umferðinni á Íslandi væri einstök. Enginn mætti vita hvert maður væri að fara. Þess vegna gæfi t.d. enginn stefnuljós. Einhvern veginn í þessum dúr var umfjöllunin, sem mér þótti harla góð.
Íslendingar hafa löngum talið það í góðu lagi að fremja lögbrot meðan þau komast ekki upp. Þess vegna er allt í lagi að aka í öfuga átt á einstefnugötu, sleppa stefnuljósunum, þjóta á hundrað á þrjátíu kílómetra götum, taka vinstri beygju eins þröngt og ef um hægri beygju væri að ræða, og svo framvegis. Ég sá um daginn glöggt dæmi þess að ekki kenna allir ökukennarar nemendum sínum að beygja rétt af tvöfaldri akbraut inn á aðra tvöfalda, þ.e.a.s. af vinstri akrein inn á þá vinstri. Ég tók bílpróf í Kanada á sínum tíma og þar ætlaði prófdómarinn vitlaus að verða þegar ég tók beygjur að íslenskum hætti, beygjur eins og mér hafði verið kennt að taka þær. Ég slapp þó með skrekkinn. Ég vona bara að þingsályktunartillaga þess efnis að Íslendingar fái að taka hægri beygju á rauðu ljósi verði aldrei samþykkt.
Lögreglan er víða fáliðuð og því nær ósýnileg nema við hraðaeftirlit úti á vegum, sem vissulega er nauðsynlegt. Hér í heimabæ mínum sést aldrei lögregluþjónn á gangi í miðbænum, eins og títt var þegar ég var polli. Enginn stuggar við bílstjórum sem leggja uppi á gangstéttum, utan merktra stæða, hleypa ekki gömlum konum yfir á gangbrautum, tala í símann, éta ís undir stýri, keyra ljóslausir... Og af því að á Íslandi er allt í lagi að brjóta lög meðan það kemst ekki upp halda menn og konur áfram að aka þar sem þeim sýnist, leggja þar sem þeim sýnist og bara yfirleitt að hegða sér eins og þeim sýnist.