18.4.2007 | 09:48
Öppdeit
Ætli breytingin úr Essó í N1 hafi ekki komið þessum þönkum mínum af stað, en ég hef svolítið verið að hugsa um endurnýjun, endurgerðir og þess háttar síðustu daga. Nýlega var skáldsaga Emily Brontë, Wuthering Heights, þýdd upp á nýtt og gefin út án þess að fundinn væri á gripinn íslenskur titill. Gamla þýðingin heitir Fýkur yfir hæðir og flestir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára þekkja söguna (og bíómyndina) undir þessu nafni, hvort sem það telst nú gott nafn eða ekki. Nú veit ég ekki hvort gamla þýðingin var eitthvað gölluð, en a.m.k. hefur einhverjum þótt nauðsynlegt að þýða bókina upp á nýtt og skipta um titil.
Hið sama gerist nokkuð reglulega með Biblíuna (nema hvað þar hefur engum komið til hugar að skipta um titil!) og sýnist sitt hverjum. Ég veit heldur ekki hver ástæðan er fyrir nýjum Biblíuþýðingum. Kannski eru villur í þeim gömlu, kannski er orðalagið skrýtið, rangt eða gamaldags. Fyrir allmörgum árum var beygingu nafns Frelsarans breytt, þannig að nú eigum við að syngja "Víst ertu Jesús, kóngur klár" (ekki Jesú) og "Ó, þá náð að eiga Jesú" (ekki Jesúm). Ég hef svo sem ekkert á móti því að nafnið Jesús sé lagað að íslenskum beygingarreglum, en að einhverjir prelátar geti leyft sér að hrófla við gömlum og góðum sálmum og breytt þeim að eigin geðþótta get ég ekki sætt mig við. Ég ætla því að halda áfram að syngja um þá náð að eiga Jesúm svo lengi sem ég get stunið einhverjum tónum upp - af virðingu við höfundinn.
AA-bókin var líka þýdd upp á nýtt fyrir nokkrum árum. Orðalagi sporanna tólf var breytt og við ýmsu hróflað, sem ég er ekki endilega viss um að sé til batnaðar. Ég veit að sumir vilja gjarnan hafa þetta eins og þetta var áratugum saman, áður en nokkrum datt í hug að því þyrfti að breyta.
Voru allar þessar endurnýjanir og endurbætur nauðsynlegar? Sumar hafa áreiðanlega reynst nokkuð kostnaðarsamar. Þarf endilega að fremja öppdeit á öllum sköpuðum hlutum? Hugsið ykkur ef Blyton-þýðingarnar yndislegu væru nú eyðilagðar af einhverjum öppdeitbrjálæðingi og börnin færu kannski að borða marmelaði í stað þess að snæða aldinmauk!
Ég efast um að það sé alltaf hyggilegt að gera breytingar breytinganna vegna. En kannski er ég bara svona asskoti íhaldssamur. Sé svo, er ég alveg sáttur við það.