Sigrar

Svo Serbarnir höfðu það. Ég er hreint ekki óánægður með það, lagið er ágætt og tilbreyting að hafa fullklæddar konur á sviðinu. Tek undir það með Kristínu Björgu Þorsteinsdóttur að gaman hefði verið að vita um hvað kerlurnar voru að syngja, því að lagið var afskaplega dramatískt. Það minnir mig líklega á króatíska lagið Neka mi ne svane, sem tók þátt í keppninni 1998, því að það lag hefur ómað í höfðinu á mér síðan sú serbneska söng sigurlagið í annað sinn áðan.

Ég botna hins vegar ekkert í dálæti manna á búlgarska laginu, sem í mínum eyrum virkaði ósköp pirrandi samsull af væli og trumbuslætti. Svíarnir voru með ódýra glysrokkseftirlíkingu og ekki þótti mér framlag Georgíu áhugavert. Vonandi hafa frændur vorir Írar svo loksins áttað sig á því að ekki hafa allir gaman af þjóðlagatónlistinni þeirra.

Sigmar skaut nokkrum sinnum hressilega yfir markið í athugasemdum sínum og kom það svo sem ekki verulega á óvart. Skondnast þótti mér þegar hann gerði grín að rússnesku stúlkunum fyrir að láta "money" ríma við "funny". Á ensku ríma þessi orð nefnilega fullkomlega. Ég tel hins vegar að okkur áhorfendur varði ekkert um það hvernig Logi Bergmann dansar þegar hann er á fjórða glasi. Og athugasemdin í undankeppninni um fátæktina í Moldavíu var fremur ósmekkleg.

En þrátt fyrir allt hef ég gaman af Evróvisjón. Þetta er einstakt fyrirbæri og þó að flestir vestan gamla járntjaldsins séu víst orðnir sammála um að stokka þurfi keppnina upp finnst mér alltaf jafn athyglisvert að heyra tónlist frá svona mörgum þjóðum á einni kvöldstund - tveimur, reyndar. Ekki eru öll lögin skemmtileg, enda ekki hægt að ætlast til þess, og leitt hversu margir eru farnir að syngja á (bjagaðri) ensku í stað móðurmálsins. Serbar sönnuðu í kvöld að móðurmálið getur staðið fyrir sínu og vel það.

Hvað fyrstu tölur þingkosninganna snertir skil ég ekki að hægt sé að túlka þær öðruvísi en svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið stórsigur (og Vinstri grænir auðvitað líka) en Samfylkingin (og Framsókn náttúrlega) tapað stórt. Samfylkingin hefur nefnilega verið langstærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu á undanförnum árum og ætti því auðvitað að hrifsa heilmikið fylgi af ríkisstjórnarflokkunum. En gerir það ekki. Fylgið stendur nánast í stað. Hlýtur það ekki að vera verulegt áfall? Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 16 ár og tapar ekki fylgi heldur þvert á móti. Hvað er það annað en stórsigur? Mér finnst ekki hægt að miða eingöngu við skoðanakannanir þegar talað er um sigur og tap.

Nú vona ég bara að framsóknarmenn hafi vit á að halda sig utan ríkisstjórnar og safni kröftum og liði. Þeir verðskulda að mínum dómi ekki þessa útreið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband