25.4.2020 | 08:41
Bið
Kona nokkur hjá embætti héraðssaksóknara segir að þær tólf vikur sem halda megi mönnum í gæaluvarðhaldi sé of stuttur tími.
Einn af forsvarsmönnum lögreglunnar hefur viðrað sömu skoðun.
Raunar segir konan að stundum hafi mál ekki verið nógu vel rannsökuð þegar gefin er út ákæra, hafi ég tekið rétt eftir.
Hvaða rugl er í gangi? Er þetta fólk virkilega á réttri hillu í lífinu?
Gerir það sér grein fyrir því hvaða frelsissvipting felst í því að vera hnepptur í fangelsi án dóms og látinn dúsa þar í tólf vikur, hvað á meira?
Þrír mánuðir? Nægja þeir virkilega ekki til að upplýsa mál? Við hvað eruð þið eiginlega að dunda ykkur?
Á sama tíma bíða sakborningar mánuðum og jafnvel árum saman í limbói eftir ákæru, jafnvel þótt mál séu tiltölulega klippt og skorin. Hvernig stendur á því? Ekki bera fyrir ykkur skort á mannskap eða fjármagni. Það kostar líka peninga - mikla peninga - að halda mönnum í gæsluvarðhaldi.
Nei, gott fólk hjá lögreglu og embætti héraðssaksóknara, takið til í ykkar eigin garði áður en þið farið að krefjast þess að mega traðka enn frekar á mönnum og konum sem ekki hafa verið dæmd sek og teljast því saklaus uns annað kemur í ljós.
Kannski mætti eyða minni tíma í hárgreiðslu og meiri í vinnuna?