8.8.2021 | 07:46
Börn, vottorð, spítalar
"Foreldrar sitji við hlið barna þeirra í bólusetningunni" (fyrirsögn á visir.is).
Barna hverra?
---
Lögregluþjónar á Keflavíkurflugvelli segja að útilokað sé að komast hjá kraðaki í komusal vegna þess að það taki tíma að fara yfir öll vottorðin.
Hvaða nítjándu aldar aðferðir eru í gangi þarna? Þjóðverjar, sem eru hvorki þekktir fyrir að vera mikil tæknitröll né sérlega rafrænir í hugsun, láta alla forskrá sig sem ætla að koma til landsins. Með forskráningunni þarf viðkomandi ferðamaður að senda vottorðið sitt rafrænt (eða gera það strax eftir komuna til landsins). Þess vegna er hvorki örtröð né sturlun í gangi í komusölum þýskra flugvalla.
Hvers vegna í ósköpunum er þetta ekki gert á Íslandi? Þá væri hægt að yfirfara megnið af vottorðunum áður en ferðamaðurinn kæmi til landsins.
Í brottfararsalnum á íslenska alþjóðaflugvellinum eru menn að huga að rafrænum lausnum, en málið er flókið vegna þess að kröfurnar á áfangastöðunum eru mjög misjafnar. Það er skiljanlegt að erfitt sé að finna einfalda, rafræna lausn á slíkum vanda. En ekkert réttlætir bullið sem á sér stað í komusalnum - nema allir forritarar landsins séu í sumarfríi? Eða einhvers staðar sitji þverhaus sem vill öllu ráða og kærir sig ekki um rafrænar lausnir?
Og af hverju tekur svona langan tíma að faea yfir bólusetningarvottorð? Voru ekki rafrænu, evrópsku vottorðin tekin upp til að það tæki enga stund að skanna þau? Eru það utanevrópumenn sem flækja málin svona?
---
Bjarni Ben kallar eftir því að Landspítalinn verði rekinn í samræmi við úttekt sem gerð var á honum fyrir nokkrum árum og sýndi að víða væri pottur brotinn við stjórnun hans. Svandís ætlar að setja í gang vinnu við að kippa málinu í liðinn.
Og hvað gerist? Forstjórinn segir málið snúast um peninga - ekkert nýtt þar - og virðist neita að skilja að það eru stjórnarhættirnir, sem verið er að finna að, ásamt nýtingu þeirra miklu fjármuna sem spítalinn fær á hverju ári. Svo öskrar örþreyttur og bitur hjúkrunarfræðingur á netmiðlunum og hundskammar Bjarna Ben, sem hún segir vera yfirmann spítalans og bera ábyrgð á ástandinu!
Það eru stjórnendur Landspítalans og yfirvöld heilbrigðismála, sem bera ábyrgð á því að peningarnir eru ekki nýttir sem skyldi og að alvarlegir agnúar virðast vera á samskiptum manna og deilda innan spítalans.
Mál er að linni. Ef finna þarf yfir- og millistjórnendum störf á öðrum vettvangi verður bara svo að vera. Og hjúkrunarfólk ætti ef til vill að kynna sér í hverju vandinn liggur áður en það fer að barma sér og skamma hina og þessa í fjölmiðlum.