30.7.2025 | 16:05
Að hafa menn fyrir rangri sök
Er hægt að leggjast lægra en að ljúga upp á mann sem stendur illa að vígi vegna fyrri synda? Að sparka í liggjandi mann?
Af óþekktum ástæðum hefur maður nokkur ákveðið að halda því fram gagnvart fjölskyldu sinni og vinum að ég hafi brotið gegn honum þegar hann var unglingur.
Síðan eru liðin a.m.k. 13 ár.
Ekki þorir hann að kæra brotið, enda veit hann eflaust að ég myndi samstundis kæra hann fyrir rangar sakargiftir. Við slíku liggur þung refsing, allt að tíu ára fangelsi.
Því miður hef ég margt á samviskunni, en nálægt þessum pilti hef ég aldrei komið.
Hvað gengur honum til?
Ég get ekki ályktað annað en að maðurinn, sem nú er 27 ára gamall, eigi við andlega erfiðleika að stríða. Og af einhverjum ástæðum kennir hann mér um þá.
En ég er saklaus. Og það kæmi í ljós ef málið yrði nokkurn tíma rannsakað. Þess vegna hefur hann líklega ekki kært það.
Eftir stendur að ég, gamall brotamaður, get illa borið hönd fyrir höfuð mér vegna gamalla brota, sem ég var á sínum tíma dæmdur fyrir.
Ég get fátt annað en vonað að pilturinn geri annað tveggja, að kæra mig svo að ég geti hrakið staðhæfingar hans og sýnt fram á að hann sé að ljúga eða að falla frá þessum staðhæfingum, biðja mig afsökunar og játa fyrir fjölskyldunni og vinunum að hann hafi logið öllu sem hann hélt fram.
Gerir hann annað hvort? Það efa ég. Ég er nefnilega hentugur blóraböggull og sökudólgur fyrir þau veikindi og þá erfiðleika sem móðir hans segir hann hafa mátt þola síðan hann var drengur. Og vitaskuld trúa foreldrarnir honum eins og nýju neti. Annarra manna börn ljúga ýmsu. En okkar börn? Aldrei!
Biddu mig afsökunar, ungi maður. Þá læt ég þetta mál niður falla. Megi Guð fyrirgefa þér.