7.6.2007 | 18:30
Númer
Mikils metinn baráttumaður fyrir bættri umferðarmenningu á Íslandi lét eitt sinn hafa eftir sér, þegar hann var spurður hvort einhvern veginn væri hægt að þekkja varasama ökumenn úr, að reynslan hefði kennt sér að vera á varðbergi gagnvart gömlum mönnum með hatt. Þeir eru nú orðnir fáir, gömlu mennirnir sem keyra um með hatta á höfði, en ég uppgötvaði nýlega að menn sem hafa keypt sér gömlu bílnúmerin sín eru margir hverjir frekar varasamir. Þeir hafa eiginlega komið í stað hattakarlanna. Þetta eru gjarnan eldri karlmenn á jepplingum og ég held það geti varla verið nein tilviljun hversu margir þessara herramanna sleppa stefnuljósunum, keyra alltof hægt, nema staðar á miðri götu til að gægjast inn í fallegan garð eða skoða einhvern eðalvagn á stæði, o.s.frv. Þeir eru sem sagt einir í heiminum, ef frá er talin frúin í farþegasætinu.
Já, ég veit, þetta eru fordómar. Skammið mig bara. Samt sem áður eru dæmin of mörg til að ég geti afgreitt þetta sem bull og þvælu í mér. Og sama hvað hver segir, ég ætla að halda áfram að vara mig á rosknum karlmönnum sem aka um alsælir í fortíðarhyggjunni á gömlu bílnúmerunum sínum.
Athugasemdir
Já það er mikið til í þessu. Roskin kona sem ég þekki vill alls ekki svona einkanúmer á jepplinginn sem hún á, ásamt sínum ekta maka til rúmlega 50 ára.
Kv Fjólus
Letilufsa, 8.6.2007 kl. 07:55
Algjörlega hárrétt. Ég hef oft tekið eftir þessu. Ég man að í "gamla daga" þegar ég og félagar mínir vorum rétt komnir á bílprófsaldurinn þá fundum við það mjög snemma út að eldri menn með hatt, staf, gleraugu og gervitennur væru varasömustu ökumennirnir.
Auðvitað ofurlítil skreytni í því, eins og ungra manna er siður, en rímar samt sem áður vel við þínar vangaveltur
Valur (IP-tala skráð) 8.6.2007 kl. 23:40