Neikvæðni

Stundum finnst mér ég vera svo hryllilega neikvæður að það hálfa væri nóg. En dálkarnir hans Illuga Jökulssonar í Blaðinu duga til að lækna mig. Í samanburði við Illuga er ég algjör Pollýanna. Ég skil annars ekkert í drengnum að láta svona sýknt og heilagt. Fengi hann ekkert borgað fyrir pistlana ef hann væri á jákvæðum nótum? Kannski ekki, það er svo margt skrýtið í kýrhausnum.

Í alvöru talað finnst mér bagalegt að svona yfirskilvitleg neikvæðni eins og fram kemur í pistlum Illuga skuli yfir höfuð þrífast í fjölmiðlum landsins. Ýmsir hafa á pilti miklar mætur, telja að hann stingi á kýlum í þjóðfélaginu o.s.frv., en minna má nú aldeilis gagn gera. Og óbeit mannsins á Davíð Oddssyni er slík að fýluna leggur langar leiðir. Sitt sýnist hverjum um Davíð og það er í góðu lagi að hafa sínar skoðanir á framámönnum í þjóðfélaginu en hamslaus krossferð af því tagi sem Illugi hefur brölt í síðustu áratugi er allt annar og uggvænlegri handleggur - ekki fyrir Davíð, heldur Illuga.

Illugi Jökulsson er feikilega flinkur penni. Með þeim albestu sem til eru. Mikið óskaplega vildi ég að hann notaði hann landi og þjóð til gagns, en ekki til að ausa for yfir suma samferðamenn sína (aðrir sleppa nefnilega alltaf dálítið billega, sýnist mér) hvenær sem færi gefst - jafnvel þótt hann fái borgað fyrir það. Svolítið nöldur og nagg er allt í lagi stöku sinnum og við höfum gott af því að skýrir menn segi okkur til syndanna, en Illugi er því miður löngu hættur því. Það er langt síðan skrif hans breyttust úr harðskeyttri þjóðfélagsrýni í lítt dulbúna ólund og takmarkalitla beiskju. Vonandi tekst honum að komast hjá því að verða að sams konar þjóðfélagsmeini og hann hefur hamast gegn í áranna rás.

Og nú ætla ég að segja þetta gott í bili. Ég er nefnilega orðinn alltof neikvæður! Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband