28.6.2007 | 13:34
Öst, vest, hjemme bedst? Förste del
Þá er rúmlega hálfsmánaðarlöngu ferðalagi um Holland og Belgíu lokið og hersingin komin heim. Það er alltaf ágætt að koma heim, að minnsta kosti fannst börnunum það þó að þau hefðu skemmt sér konunglega í útlöndunum. Sjálfur hefði ég vel getað hugsað mér að vera lengur og fara víðar. Ég hef ákaflega gaman af að ferðast og myndi gera miklu meira af því ef heimilisbókhaldið leyfði.
Þetta var raunar dálítið merkileg ferð. Tengdapabbi varð sjötugur nú í júní og hélt upp á afmælið með því að bjóða börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum, alls 30 manns, til vikudvalar í Kempervennen í Hollandi. Og viti menn, hver einasti kjaftur komst með - það vantaði ekki einn einusta mann í hópinn. Ferðin var bókuð snemma og því höfðu allir tök á að skipuleggja fríið sitt með tilliti til þess að komast með.
Það var ljómandi gott að dveljast í Kempervennen. Þangað hafa margir Íslendingar farið sér til hvíldar og skemmtunar, enda sumarhúsin ágætlega útbúin og ýmislegt hægt að hafa fyrir stafni. Börnin nutu þess að fara í sund, hjóla og leika sér. Unglingarnir brugðu sér á þungarokkstónleika ekki langt frá. Fullorðna fólkið slakaði á, fór í stuttar hjólreiðaferðir og naut lífsins.
Það sem olli mér helst vonbrigðum í Hollandi var kaffið. Hollendingar eru litlir kaffimenn og Starbucks-menningin virðist því miður ekki hafa haldið innreið sína þangað enn. Kaffið var yfirleitt þunnt og bragðlítið, ekki ósvipað íslensku vegaskálakaffi. Ölið drekk ég ekki lengur en man af fyrri kynnum, löngum og nokkuð ítarlegum, að á því sviði standa Hollendingar mjög framarlega. Það sem vakti mesta ánægju mína var því vatnið úr krananum, sem var ekki einasta ágætlega drykkjarhæft heldur bara nokkuð gott.
Viðmót starfsfólks í Kempervennen var prýðisgott og allt stóðst sem stafur á bók. Íslendinga hittum við fáa, en römbuðum þó á gamla nágranna okkar af Eyrinni, fólk sem við þekkjum ekki ýkja mikið, en virðist þó tengt okkur á dularfullan hátt, því að síðast þegar við fórum í svona frí, fyrir þremur árum, hittum við þetta ágæta fólk líka - fyrir algjöra tilviljun. Það var í Lególandi í Danmörku. Já, heimurinn er lítill.
Eftir ljúfa og notalega viku í Kempervennen og nágrenni fór bróðurpartur hópsins heim, en við Anna og börnin leigðum okkur hins vegar bíl og héldum til Belgíu. Nánar um það síðar.