29.6.2007 | 12:49
When in Rome: Part Two
Í Hollandi snæddi ég lifandis býsn af kjúklingi og túnfiski, enda erfitt að fá annan fisk þar sem við vorum niður komin. Hollendingar eru ekki að drekkja sínum túnfiski í majónesi og eggjum eins og við gerum. Túnfisksalatið þeirra er því ætt. Raunar eru Niðurlendingar afskaplega hrifnir af majónesi og eta það með mörgum réttum, m.a. frönskum kartöflum, svo að það má teljast mildi að túnfiskurinn skuli sleppa sæmilega við gulu leðjuna. En mikið skelfing vildi ég að Íslendingar hættu að kæfa túnfisk, lax og fleira góðgæti í eggjagumsi og kalla "salöt".
Belgar tóku vel á móti okkur. Við ókum um flæmska hlutann, komum fyrst við í skemmtigarðinum Bobbejaanlandi og vörðum þar hálfum degi eða svo en keyrðum síðan að gististaðnum, sumarhúsi í þorpinu Hertsberge, u.þ.b. 30 mín. akstur frá Brugge. Sumarhúsið reyndist að vísu alls ekki vera í þorpinu heldur í forkunnarfallegum skógi skammt frá. Gestgjafinn var roskin kona, Cecilia að nafni, sem hafði komið til Íslands fyrir tuttugu árum og var alveg í skýjunum yfir að fá Íslendinga í gistingu til sín. Dóttir mín varð líka óskaplega glöð því að Cecilia reyndist eiga þrjá ketti, sem voru mannelskir með afbrigðum.
Við höfðum verið afar heppin með veður í Kempervennen en nú seig smám saman á ógæfuhliðina í þeim efnum, sólskinsdögunum fækkaði og við tóku skúrir með köflum. Hitinn var þó enn afar þægilegur.
Meira síðar.