30.6.2007 | 20:53
Brugge
Einn daginn, meðan við dvöldumst hjá hinni góðu Ceciliu í Hertsberge, fórum við í kynnisferð til Brugge undir leiðsögn Pauls nokkurs, sem er kennari og Íslandsvinur og hefur m.a. verið í miklum tengslum við kennara Menntaskólans á Akureyri. Hann hafði frétt af því að Akureyringar væru væntanlegir á svæðið, hafði samband við okkur og bauðst til að verða leiðsögumaður okkar um gamla bæinn í Brugge. Við þágum boðið og sáum ekki eftir því. Maðurinn var fróður og skemmtilegur og vildi engin laun þiggja önnur en bjórglas og svo ofurlítinn harðfisk, sem við ætlum að senda honum við fyrsta tækifæri.
Gamla miðborgin í Brugge er falleg og afar sérstök, en minnti þó svolítið á ofvaxið safn. Þarna var mikill fjöldi gamalla og fagurra húsa, en búðirnar stíluðu nær allar inn á túrista (seldu konfekt og blúndudúka) og meðalaldur ferðamannanna sem þarna voru á vappi hefur áreiðanlega verið hærri en um borð í skemmtiferðaskipunum sem hér leggjast að bryggju á sumrin. Það vantaði lífið. Heimamennina. Brugge var eins og risastórt Árbæjarsafn. Munurinn varð okkur ekki að fullu ljós fyrr en við komum til annarrar borgar sem líka státar af gömlum húsum og síkjum: Amsterdam. En að henni kemur síðar.
Veðrið lék við okkur í Bruggeferðinni og raunar flesta þá daga sem við dvöldumst á Vestur-Flandri. Við fórum með börnin í sædýragarð í úthverfi Brugge sem kenndur er við Baldvin konung og var það hin besta skemmtun. Þá skoðuðum við kastala í grenndinni og gríðarstóran hallargarð, heimsóttum konu sem selur heimagerðan ís á bænum sínum, og könnuðum þorp og sveitir. Það var gaman að snæða á krám og veitingahúsum þarna í grenndinni því að ekki skildu allir þjónar ensku og matseðlar voru gjarnan bara á flæmsku. Þurfti einu sinni að kalla til einn bargestanna til aðstoðar þar sem enginn starfsmannanna skildi ensku eða þýsku og menntaskólafranskan okkar Önnu dugði ekki alltaf til að leysa vandann. Þeir Belgar sem við höfðum samskipti við voru raunar allir ákaflega gestrisnir, glaðlegir og hjálpsamir.
Skúrir fóru nú að gera vart við sig en veðrið skipti okkur engu. Þær voru líka barnaleikur miðað við þær sem biðu okkar á öðrum slóðum. Og verður sagt frá því í næsta þætti.
Athugasemdir
Kemur mér ekki á óvart að Paul hafi staðið sig í leiðsögninni! Hann er einn mesti höfðingi sem ég hef kynnst og svo sannarlega vinur vina sinna. Mér kemur svo sem ekki á óvart að ykkur hafi þótt borgin sérstök. Ég hef mest verið þar að vetrarlagi og þá með heimamönnum, þannig að ég þekki ekki þá hlið sem þið sáuð. En hún kemur mér ekki á óvart.
Kveðjur
Jónas
Jónas Helgason, 1.7.2007 kl. 17:24