1.7.2007 | 22:28
Spaarndam
Við kvöddum Ceciliu og kettina með söknuði að morgni föstudags og lá nú leiðin til þorpsins Spaarndam, miðja vegu milli Amsterdam og Haarlem. Þar áttum við gistingu eina nótt í gistihúsinu Sjónaukanum (De Telescoop) þar sem Daphne DeBurgh réð ríkjum (ekkert skyld Chris, held ég) með manni sínum og ungum tvíburadætrum. Fínasta gistihús og morgunverðurinn afskaplega góður og vel úti látinn. Hinir gestirnir í húsinu voru tvær belgískar akstursíþróttastúlkur, mjög indælar, glaðlegar og skemmtilegar og sönnuðu enn frekar kenningu okkar um að Flæmingjar væru besta fólk.
Við brugðum okkur um kvöldið á skyndibitastað þorpsins en þegar halda átti til baka kárnaði gamanið. Það tók að rigna eins og hellt væri úr fötu. Við þutum í átt til Sjónaukans en þá bar svo við að vindubrúin yfir síkið, sem var á milli veitingastaðarins og gistihússins, tók að lyftast. Undir sigldi skúta og á meðan máttum við bíða í ausandi rigningunni. Svo sigldi önnur skúta ... svo önnur ... og alls urðu þær sex! Ein regnhlíf var með í för og hafði hún lítið að segja, íslenska fjölskyldan var orðin holdvot. Loksins seig svo brúin á ný og þá var sko hlaupið í skjól! Verður kvöldið lengi í minnum haft en gaman er að segja frá því að enginn fór í fýlu vegna atburðanna - allir höfðu gaman af og börnin skemmta sér konunglega við að segja frá því þegar við biðum í grenjandi rigninguna við vindubrúna í sómaþorpinu Spaarndam.
Athugasemdir
Sæll Helgi Már
Alltaf gaman að lesa vefinn þinn. Skemmtilegar ferðasögur.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 2.7.2007 kl. 00:39