3.7.2007 | 09:54
Amsturdammur
Amsterdam hafði ekki breyst ýkja mikið á þessum aldarfjórðungi sem liðinn er síðan ég heimsótti hana síðast. Ég var hissa á að finna ekki skikkanleg kaffihús, svona eins og þau sem sprottið hafa upp í Lundúnum á síðustu árum og snarbætt kaffi- og samlokumenninguna þar í landi, og ég var líka undrandi á því hversu litlar framfarir hafa orðið í almenningssamgöngum. Sporvagnarnir eru svo sem ágætir en alltof litlir og yfirleitt stappaðir.
Börnin vildu ólm fara í síkjasiglingu, sem þeim fannst svo auðvitað ekkert sérstaklega skemmtileg. Þau skemmtu sér hins vegar mjög vel í tæknimiðstöðinni Nemo og í TunFun, en það eru gömul undirgöng við Mr. Visserplein sem breytt hefur verið í stóran og mikinn leikvöll fyrir börn að 12 ára aldri. Snjöll framkvæmd og greinilega vinsæl.
Ég komst í tónlistarbúðina Fame og keypti þar talsvert af hljóð- og mynddiskum, meðal annars fyrstu syrpuna af gömlu "Mission Impossible"-þáttunum sem sýndir voru í Sjónvarpinu í gamla daga og hétu þá Ofurhugar!
Eini Íslendingurinn sem varð á vegi okkar á Kalverstraat var ekki ómerkari kona en minn gamli samstarfsmaður og bloggvinur, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Það var skemmtilegt að rekast á hana, en við höfum ekki sést í allmörg ár.
Það var gaman í Amsterdam. Við gistum á algjöru lúxusgistiheimili rétt við miðborgina og höfðum það sannarlega gott. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum með nokkurn skapaðan hlut - fyrr en e.t.v. á Schipholflugvelli á heimleiðinni. Nánar um það síðar.