Schiphol (Skiphóll?)

Loks rann heimferðardagurinn upp. Fjórir dagar í Amsterdam bundu enda á rúmlega hálfsmánaðar ferðalag um Holland og Belgíu. Allt hafði gengið upp. Fríið alveg hreint dásamlegt.

Heimferðin gekk ljómandi vel líka. Flugvélin var nokkurn veginn á áætlun og flugið hið ágætasta í alla staði, starfslið Icelandair þjónustulipurt og glaðlegt og allir í besta skapi. Smáfólkið hlakkaði til að komast heim og hitta vini sína, húsfreyja gat vel hugsað sér að vera nokkrum dögum lengur í Amsterdam, en hún heillaðist mjög af þessari fögru og skemmtilegu borg, og heimilisfaðirinn var alveg tilbúinn að taka sér annan bílaleigubíl og keyra til næsta lands. Langaði ekkert heim. Fannst ferðalagið nýhafið!

Eitt kom okkur þó á óvart þegar við komum á Schipholflugvöll þremur tímum fyrir brottför, alveg viss um að við hefðum nægan tíma til að tékka okkur inn, fá okkur að borða, skoða okkur um og versla svolítið. Ónei. Hefðum við mætt örfáum mínútum seinna hefðum við lent í ógnarlangri biðröð, því að innritunarborð Icelandair voru bara tvö. Tvö! Þrjú, raunar, en það þriðja var ætlað Sagaklassfarþegum. Við vorum þó heppin, því að við þurftum bara að bíða í hálftíma. Styttist biðin nokkuð vegna þess að afgreiðsludaman í Sagaklassdeildinni sá aumur á okkur og benti okkur á að koma til sín. Ég er hins vegar handviss um að þeir sem voru talsvert aftar í röðinni hafa þurft að bíða miklu, miklu lengur og áreiðanlega varla náð að gera nokkuð annað en æða beint út í vél.

Ég hélt satt að segja að svona þjónusta, eða öllu heldur skortur á henni, heyrði sögunni til. Ég efast ekki um að það kostar sitt að leigja innritunarborð í erlendum flugstöðvum, en fyrr má nú vera nískan. Ekki sá ég nokkurt annað dæmi um svona nánasarhátt á Schiphol. Skora ég nú á Icelandair að reka af sér þetta áratugagamla slyðruorð og bæta þjónustu sína. Lággjaldafélög geta leyft sér slíkt þjónustuleysi, ekki Icelandair. Raunar er sú saga lífseig að Icelandair sé lággjaldafélag þegar um erlenda ríkisborgara er að ræða og þeir borgi miklu minna fyrir flug en við Íslendingar. Sé þetta skröksaga gleðst ég mjög. Sé þetta satt, þá eigum við Íslendingar a.m.k. heimtingu á sérstökum innritunarborðum fyrir okkur á erlendum flugvöllum. Ég sé skiltin fyrir mér: Annars vegar "Economy class" og hins vegar "Business class and Icelanders."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband