10.7.2007 | 17:17
Vegir
Hvað sem öllum kvótaskerðingum líður, en á slíku hef ég ekkert vit, fagna ég því að flýta eigi vegagerð á ýmsum svæðum sem hafa orðið útundan á síðustu áratugum. Ég samgleðst íbúum á Norðausturhorninu, sem ekki hafa riðið feitum hesti frá vegaáætlunum síðustu samgönguráðherra. Hófaskarðsleið og Dettifossvegur eru afskaplega mikilvægar framkvæmdir, sem og Suðurstrandarvegur, sem ég hef víst áður minnst á. Þær eru reyndar allar mikilvægar. Og skil ég þá ekki Sundabrautina undan.
Bölvað þykir mér hins vegar að heyra að enn skuli eiga að efna til vitleysunnar "Einnar með öllu" hér í mínum fallega bæ. Ljóta ógeðið. Og verður áreiðanlega ekki betri núna en fyrri sumur, þrátt fyrir fögur fyrirheit um "fjölskylduhátíð". Þau hafa nú brugðist fyrr. Þið fyrirgefið mér vonandi svartsýnina, kaupmenn góðir, og þið hin sem mögulega getið grætt einhverja þúsundkalla á þessu sóðasvalli.