Strætó er að koma

Trítlaði niður á stoppistöð uppúr klukkan hálfátta í morgun og gladdist þegar ég sá Gamla vagninn koma upp brekkuna. Gamli vagninn er ábyggilega að minnsta kosti aldarfjórðungsgamall og er sá síðasti nokkurra vagna sem SVA keypti um það leyti. Hann er enn í fullu fjöri, að því er manni virðist, og bílstjórarnir láta vel af því að keyra hann, þótt hann sé þyngri og svifaseinni en nýju strætóarnir.

Gamli vagninn er stærri en þeir nýju og í honum er alltaf nóg pláss. Sætin eru líka miklu þægilegri en í nýju vögnunum. Þeir nýju eru alveg hreint ágætir, ekki er ég að hvetja forsvarsmenn SVA til að selja þá og kaupa gamla, síður en svo. Ég er aðallega að pára þetta vegna þess hvað mér finnst notalegt til þess að hugsa að þrátt fyrir tækjabrjálæði Íslendinga og hvað við erum gjörn á að fleygja öllu sem bilað er - og jafnvel áður en það bilar, ef það þykir ekki lengur nógu flott - skuli Gamli vagninn silast upp brekkuna af og til á morgnana og flytja mig í vinnuna og heim aftur. Og án þess að klikka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessir vagnar voru einhver bestu kaup sem Akureyrarkaupstaður hefur gert. Mig minnir endilega að annar gamall vagn frá SVA sé notaður sem skólabíll í Mosfellsbæ. Ég vona að börnin þar viti hvað þau eiga gott. Svona bílar eru ekki á hverju strái lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband