13.7.2007 | 18:47
Ellimörk?
Þessa stundina er bráðmyndarleg stúlka að lesa fréttirnar á Stöð 2. En mikið hræðilega er hún óskýr. Þegar hún er ekki á skjánum þarf ég virkilega að sperra eyrun til að skilja hvað hún er að segja. Ástandið lagast þegar hún sést, því að þá get ég að nokkru ráðið af varahreyfingunum hvað hún er að fara. Pirringur í mér? Nei, alls ekki. Ellimörk? Kannski. En þá vildi ég ekki vera í sporum fólks sem virkilega er farið að tapa heyrn.
Fréttaþulir verða að vera skýrmæltir. Ekkert endilega norðlenskir, vestfirskir, skaftfellskir, sunnlenskir... bara skýrmæltir. Að öðrum kosti fara fréttirnar fyrir ofan garð og neðan og það er varla ætlun nokkurrar fréttastofu, er það?
Athugasemdir
Hefurðu tekið eftir því hvað allir íþróttamenn og -konur lesa íþróttafréttirnar hratt, og oft ekki skýrt. Þarf að spá í það hvort fréttir af skák séu lesnar hægar en aðrar fréttir. Annars var það þannig að þegar amma var farin að missa heyrn að hún heyrði vel í sumum þulum og fréttamönnum en ekki öðrum - og það voru ekki endilega þeir sömu og mér fannst bestir allra. Man reyndar að einhvern tíma fengu þau Broddi og Ólöf Rún verðlaun fyrir skýrleika. Og Broddi les ekki hægt - þannig að það er ekki aðalatriðið. Hvernig ætli tilsögnin sé á Stöð 2.
Og það má koma fram að mér finnst mjög þægilegt að hlusta á þig í útvarpinu.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 13.7.2007 kl. 19:00