15.7.2007 | 23:13
Hrist'ann, heillin
Haldið þið að ég hafi ekki loksins sest niður og horft á Bond-myndina Casino Royale? Það kom reyndar ekki til af góðu, ég hef verið heima undanfarna daga með bilað auga, en það er nú loksins að lagast og því áræddi ég að reyna að horfa á heila bíómynd. Það tókst.
Já, Bond var ágætur. Ég verð samt dálítinn tíma að venjast Craig í þessu hlutverki. Hann virðist ekki eiga til þennan sposka svip sem gerði Connery, Moore og Brosnan svo ágæta og hann er ekki alveg nógu "suave". Hann er líkastur Dalton, finnst mér, og það er út af fyrir sig ekkert slæmt. Ég hugsa að Ian Fleming hefði orðið ánægður. Craig er líkur manninum sem Fleming sá fyrir sér þegar hann skóp persónuna, en vissulega dálítið eldri.
Aftur á móti þykir mér hálfkjánalegt að myndin skuli vera látin gerast nú á dögum af því að í henni er Bond að hefja feril sinn sem 007. Með sama hætti er órökrétt að Judi Dench skuli vera látin leika M, þar sem hún kom ekki til sögunnar fyrr en Bond var kominn á virðulegan aldur. En það er nú svo margt sem er hálfkjánalegt og órökrétt í Bond-myndum, að þetta gerir í rauninni lítið til. Það var gaman að sjá Felix sáluga Leiter, vin Bonds, en litaraft hans bendir reyndar til að hann stundi Bahamaeyjarnar fullgrimmt. Ég saknaði Q ekkert tiltakanlega, en einhver með hans hugvit hefur þó greinilega fengið að koma nálægt gerð bifreiðanna sem Bond notar.
Ég vil enn að gerð verði mynd þar sem Bond fær að vera á "sínum" aldri. Moore og Connery eru enn nokkuð brattir og ég veit ekki betur en Lazenby sé það líka. Væri ekki gráupplagt að fá einhvern þeirra til að leika Bond þar sem hann stígur upp úr sínum helga steini og vinnur eitthvert þjóðþrifaverk til bjargar landi sínu og drottningu? Einhver roskin og virðuleg leikkona gæti verið Bond-stelpan. Hvað um Judy Parfitt eða Súsönnu York?
Lagið í Casino Royale, flutt af Chris Cornell, er ekkert sérstakt. Það fellur að mínum dómi í flokk miðlungs-Bondlaga. Botninn náðist án efa með hryllingnum sem Madonna sönglaði fyrir nokkrum árum. Besta Bond-lagið? Erfiðari spurning, því mörg eru góð.
Og í lokin hljómaði hið gamalkunna stef Monty Normans, sem betur fer lítið breytt. Það bjargaði myndinni og varð til þess að mér fannst, þegar upp var staðið, að ég hefði verið að horfa á ekta James Bond.