23.7.2007 | 17:45
Fjölskylduhátíð?
Hvers konar fjölskylduhátíð er það sem býður upp á sérstök unglingatjaldstæði? Eru unglingar ekki hluti fjölskyldunnar? Eru fjölskylduhátíðir ekki hugsaðar sem sameiginleg skemmtun fyrir fjölskylduna? Eða eru þetta sérstök tjaldstæði fyrir munaðarlaus ungmenni?
Hvers konar fjölskylduhátíð er það sem býður upp á unglingadansleiki til klukkan þrjú að nóttu?
Upp á hvers konar fjölskylduhátíð ætla þeir að bjóða sem kalla fólk, sem hefur áhyggjur af því að þrettán ára unglingar skuli neyta áfengis og vímuefna hópum saman á Akureyri um verslunarmannahelgi, "postula neikvæðninnar"?
Séra Svavar A. Jónsson hefur m.a. fengið þessa nafnbót fyrir að bera umhyggju fyrir æsku landsins. Þá er Elín Margrét Hallgrímsdóttir, sem fyrr, eini bæjarfulltrúinn sem þorir að vera á móti fjöldasamkomum sem sigla, að því er virðist, undir fölsku flaggi ár eftir ár.
Er meirihluti bæjarbúa virkilega hlynntur Einni með öllu? Enginn sem ég þekki er það. Hver er það eiginlega sem hefur svona sterkt tak á bæjarstjórninni, sama hverjir þar sitja?
Athugasemdir
Er þetta sama lýðræðið og verktakalýðræðið þegar verktaki sér auða lóð sem hann heldur að hægt sé að græða á að byggja á?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 24.7.2007 kl. 19:20