4.8.2007 | 13:29
Ró
Hér á Akureyri hefur verslunarmannahelgin verið fremur róleg það sem af er og líklega ljóst að "aldurstakmarkið" sem bæjarstjórn setti á tjaldstæðin hefur skilað sér. Fulltrúar græðginnar eru vissir um að þessi ákvörðun sé röng. Fulltrúar viðkomandi aldurshóps líka, þeir sem á annað borð hafa tjáð sig. Það er ósköp skiljanlegt, enda er ég hræddur um að ég hefði orðið fúll í þeirra sporum. Lögmenn eru sumir vissir um það líka, að þetta sé ranglátt og ólöglegt, enda gæti hér verið komið ágætismál handa þeim að græða á.
Sjálfur er ég ekki viss í minni sök hvað þessa ákvörðun bæjaryfirvalda snertir. Í aðra röndina finnst mér svolítið kjánalegt að setja svona aldursmörk, enda langstærstur hluti fólks á þessum aldri til mikillar fyrirmyndar og alls ekki á þeim buxunum (eða úr þeim) að drekka, dópa, æla, nauðga og skíta í garða um verslunarmannahelgar. Á hinn bóginn verður að segjast að margir íbúar bæjarins, þar á meðal ég, fagna "rólegheitunum". Þetta er allt annað líf en undanfarin ár. Og ég er viss um að þær fjölskyldur, sem leggja leið sína til Akureyrar nú um helgina, syrgja ekki sukkandi ungviðið.
Mikið er talað um að betra sé að hafa unga fólkið inni í bæjarfélagi, þar sem því er veitt þjónusta og er undir einhvers konar eftirliti, heldur en úti á víðavangi. Þetta minnir mig svolítið á rökin fyrir því að unglingum, allt niður í 13 ára, var hleypt inn í æskulýðsheimilið Dynheima í gamla daga þrátt fyrir að á þeim sæist vín. Mörgum þótti nefnilega betra að hafa þá þar, undir umsjón og eftirliti, heldur en einhvers staðar úti í bæ í misjöfnum veðrum og alls kyns óæskilegum selskap.
Svo datt einhverjum í hug að ráðast að rót vandans: unglingadrykkjunni. Allt í einu varð nokkurs konar hugarfarsbreyting. Einhver var svo snjall að benda á að það væri kannski ekkert sniðugt að unglingar væru yfir höfuð að drekka. Þetta hafði fólki ekki dottið í hug fyrr, en við nánari umhugsun fannst flestum þetta prýðileg hugmynd og voru til í að taka þátt í að reyna að stöðva unglingadrykkju.
Hefur nokkrum dottið í hug að reyna að ráðast að rót vandans hvað snertir sukk ungs fólks um verslunarmannahelgar með tilheyrandi umgengnis-, ofbeldis- og hávaðavanda? Er kannski, þegar allt kemur til alls, hægt að senda ungmennunum (þ.e. þeim minnihlutahópi sem þetta stundar) þau skilaboð að þetta verði ekki liðið, hvorki á Akureyri né annars staðar?
Spyr sá sem ekkert veit annað en það að hann, sem óbreyttur íbúi á Akureyri, er mjög sáttur við Eina með öllu þetta árið - a.m.k. so far.
Athugasemdir
það er ró já, ekki spurning. veit það því ég er staddur í höfuðborginni. akureyri. en mér finnst voða asnalegt að setja þessar reglur svona kortéri í hátíð og hefði sko átt að undirbúa komu fólksins betur og tjalda öllu til. hinsvegar er það veðráttan sem kemur í veg fyrir straum fólks og það er ekkert gaman að tjútta í kalsa og rigningu ha... en útihátíðar eiga ekkert að vera í miðjum bæjum (og borgum). maður tjúttaði sko bara í hallormsstað eða á laugum hér i den.
arnar valgeirsson, 4.8.2007 kl. 15:38
Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um hvort þessi hátíð á að vera fjölskylduhátíð eða teiti unga fólksins. Við verðum að velja. Ég vel fjölskylduhátíð, einfaldlega af því að þeirri hátíð fylgir minni drykkja og læti. Og ef til vill hefur það eitthvað með aldur minn að gera
Krissa (IP-tala skráð) 4.8.2007 kl. 19:39