4.8.2007 | 19:34
Hræsni?
Í fréttum RÚV áðan var viðtal við einn forsvarsmanna hinna svokölluðu Vina Akureyrar, sem halda hátíðina Eina með öllu. Þegar hann sagði að í bænum væru nú um helmingi færri gestir en í fyrra spurði fréttakonan: "Hverju kennirðu um?"
Þvílík spurning. Ég hefði spurt: "Hverju þakkarðu það?"
Ég vil að sjálfsögðu fá sem flesta gesti til Akureyrar - og sem flesta nýja íbúa - en mér er ekki alveg sama hverjir gestirnir eru eða hverra erinda þeir koma. Í dag var t.d. handtekinn maður á leið til Akureyrar með 100 skammta af LSD. Guði sé lof að hann komst ekki alla leið.
Ég býð alla gesti velkomna, sem geta hagað sér eins og fólk - en ef aldurstakmark er eina leiðin, þótt vond sé, til að bæjarbúar og friðsamir gestir geti sofið sæmilega rólegir þá verður bara að hafa það. Sama leið er farin víðar um þessa helgi, þótt það fari ekki eins hátt.
Lofuðu ekki allir flokkar því fyrir kosningar að framvegis yrði um friðsamlega fjölskylduhátíð að ræða í bænum um verslunarmannahelgar?
Kaupmenn og fyrirtæki, þ.á.m. lítil kaffihús á samgöngumiðstöðvum, hljóta að þrauka þrátt fyrir að gestir séu heldur færri. En það er nú líka gömul saga að gestirnir virka alltaf færri ef þeir eru friðsamir...
Athugasemdir
Erum við ekki öll að vona að þetta verði friðsöm fjölskylduhátíð...? Hvað er það þá sem ekki á hér heima... í það minnsta þarf eitthvað að hverfa sem áður var því allt of margt sem hér gerðist var ekki fjölskylduhátið
Jón Ingi Cæsarsson, 4.8.2007 kl. 21:57