Mývatn

Fjölskyldan brá sér í Mývatnssveit í gær og hafði þá ekki þangað komið býsna lengi. Veðrið var gott, örlítil gola hélt flugunni í burtu og sólin skein aðeins með köflum svo að ökuferðir milli áfangastaða urðu börnum bærilegar. Að frátöldum fremur dýrum og ekkert sérlega góðum hádegismat í kaffiteríunni á Seli (mamma var að vísu harðánægð með kjötsúpuna sína) var þessi ferð vel heppnuð í alla staði. Sveitin skartaði sínu fegursta og hvarvetna var tekið vel á móti okkur. Mývatnssveit er alltaf jafn falleg. Þess sjást þó víða merki að ferðamenn fara ekki að settum reglum og tilmælum, t.a.m. er átroðningurinn í Dimmuborgum og víðar greinilega mikill. Erlendir ferðamenn virðast mun verri en Íslendingar hvað þetta snertir. Þeir halda líklega að reglurnar og tilmælin séu einungis fyrir heimamenn!

Það vakti athygli okkar að hvergi var neinn að flýta sér. Það var óvenju afslappað andrúmsloft víðast hvar, hvort sem var við kassann í Strax eða Jarðböðunum, þótt á báðum stöðum væri mikið að gera. Við urðum ekki vör við neinn hraðakstur á leiðinni og hvergi bólaði á óþolinmæði eða geðvonsku.

Skánar kannski ferðamáti manna á Íslandi þegar líður á sumarið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband