Pipar og salt: In memoriam

Þá er ljóst að þátturinn litli, sem ég hef stýrt á Rás 1 síðastliðna vetur, er kominn undir græna torfu. Pipar og salt hljómar ei meir. Ég mun sakna þess svolítið að geta ekki lengur dustað ryk af gömlum plötum sem ég veit að svo margir hafa gaman af að hlusta á, en til þess gefst vonandi tækifæri seinna. Ég hef haft óskaplega gaman af þessu aukastarfi mínu, ekki síst vegna viðbragða hlustenda. En það er vandi að halda dampi og ef til vill var hreinlega kominn tími á karlrassgatið sem hér skrifar.utvarp

Aðstæður hafa líka breyst, ég skipti um aðalstarf í vor og verð fram eftir hausti að bisa við losa mig út úr næstsíðustu aukavinnunni, svo að verkefnaskorturinn þjakar mig ekki. Ég er ákaflega latur maður að eðlisfari en samt hef ég alltaf unnið miklu meira en ég hef ætlað mér. Kannski vegna þess að ég hef gaman af svo mörgu, kannski vegna þess að ég á stundum erfitt með að segja nei.

Samt get ég ekki neitað því að það eru dálítil vonbrigði að yfirmaður útvarpsins skuli ekki telja sér hag í því að hafa mig innanborðs, svona að jafnaði. Sjálfur veit ég í hjarta mínu að til eru margir verri útvarpsmenn en ég, þó að vissulega séu mjög margir miklu betri. Starfsmenn tónlistardeildar RÚV hafa lengi setið að músikhólfunum á Rás 1 og það er svo sem ágætt, þeim veitir ábyggilega ekkert af aukatekjunum, en þó að ég vilji ekki kasta rýrð á þetta ágæta fólk verð ég að játa að mér finnst klukkan hafa glumið á býsna marga fyrir alllöngu síðan. Það er of lítil hreyfing á fólki og þó að Rás 1 sé íhaldssamt útvarp - og eigi að vera það - er algjör óþarfi að láta hana staðna. Þess vegna var kannski ágætt, þó að ég hafi ekki staldrað lengi við, að ég skyldi fá reisupassann! Rás 2 hefur því miður fjarlægst alþýðu manna á síðustu árum en ég er vongóður um að Sigrún muni snúa þeirri þróun við og mér heyrist hún raunar byrjuð á því. Þar á bæ er misjafn sauðurinn, eins og gengur, og margir búnir að vera þar alltof, alltof lengi.

Ég hef lengi haft þá skoðun að hér á Akureyri vanti vandað og gott tónlistar- og viðburðaútvarp fyrir fullorðið fólk. Þeir sem eru sömu skoðunar - og vita um einhvern sem á peninga og er sömu skoðunar! - hafi endilega samband við karlrassgatið sem þetta skrifar! Netfangið mitt er einhvers staðar hér á síðunni...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Dagný Eydal

Er fullkomlega sömu skoðunar.....mun viðra þetta víðar. Vantar líka vinnu fyrir norðan og gæti séð um kaffið t.d. þannig að..... Hins vegar í fullri alvöru þá finnst mér bara að Rás 1. ætti að skammast sín og bjóða þér launahækkun fyrir Pipar og Salt. Þegar ég vann í Blóðbankanum hlustuðum við mikið á útvarpið og þessi þáttur var í miklum metum hjá öllum. Ótrúlegt apparat sem þessi stofnun er að verða

Inga Dagný Eydal, 14.8.2007 kl. 12:04

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband