5.9.2007 | 21:27
Augnsamband
Eitt af því mikilvægasta í umferðinni, sagði ökukennarinn minn mér forðum, er að reyna að ná augnsambandi við aðra ökumenn. Þetta er sérstaklega mikilvægt á gatnamótum, á hringtorgum og við aðrar þær aðstæður þar sem þú ert e.t.v. ekki alveg 100% viss um hvað annar ökumaður ætlar sér að gera, eða ef þú heldur að hann viti e.t.v. ekki hvað þú hyggst fyrir.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar aftur bárust fréttir af umferðarhnútum og hægagangi á götum Reykjavíkur. (Ástandið er svo sem ekki miklu betra hér á Akureyri, enda bílarnir hér alveg jafn margir, ef ekki fleiri, miðað við íbúafjölda, sbr. svifrykið sem hér eitrar fyrir bæjarbúum á veturna.) Ég hef tekið eftir því á síðustu dögum að það heyrir til undantekninga að aðrir ökumenn líti í áttina til manns í von um að ná augnsambandi, jafnvel á hættulegum stöðum. Eldri ökumenn eru þó skárri en þeir yngri.
Væri þetta ekki eitthvað sem yfirvöld umferðarmála gætu hamrað svolítið á? Ég er nefnilega sannfærður um það, eftir þrjátíu ár við stýrið, að gamli ökukennarinn minn vissi hvað hann söng. Um leið og tveir ökumenn ná augnsambandi eru þeir orðnir samherjar í umferðinni. Og þá verður þessi hundleiðinlega og stórhættulega einstaklingshyggja Íslendinga í umferðinni kannski ekki lengur allt að því sjálfsagður hlutur.