6.9.2007 | 21:06
Mas?
Áðan las ég "frétt" um það á visir.is að hún Þóra í Stundinni okkar væri, eins og margir vissu (en ekki ég, enda fylgist ég ótrúlega lítið og illa með), búin að söðla um og ætlaði nú að selja húsið sitt við Framnesveginn. Hún dvelst nefnilega langdvölum á Bahamas.
Bahamas? Hvar er það?
Gæti hugsast að þetta séu Bahamaeyjar? Sem eru, ef ég man rétt, í Karíbahafi eða þar um slóðir (en ekki í Karabíska hafinu, sem ég hafði aldrei heyrt nefnt fyrr en fyrir fáeinum árum).
Lýkur þar með nöldri dagsins, enda sá sem þetta ritar farinn að hugsa hlýlega til Bahamaeyja eftir þessi skrif. Þar á ég nebbla gamla skólasystur, sem er víst orðinn einhvers konar yfirmaður í stórum og gildum banka... Ég ætti kannski að senda henni Rhondu tölvupóst við tækifæri og kanna hvernig ég geti best ávaxtað mitt rýra pund? Ég er a.m.k. viss um að þjónustugjöldin og dráttarvextirnir eru varla hærri þar en hér...