12.9.2007 | 08:32
Sex hundruð?
Ég var að lesa að veitingamaður hér í bæ hefði afhent bæjarstjóra lista með undirskriftum 600 manna sem krefjast þess að meirihluti bæjarstjórnar segi af sér vegna aldurstakmarka á tjaldstæðum bæjarins fyrstu helgina í ágúst.
Ég leit á netsíðuna, þar sem undirskriftum var safnað, skömmu eftir að söfnunin hófst. Þá blöstu vissulega við mér nöfn allmargra Akureyringa. Þarna var hins vegar líka fólk sem var að mótmæla undirskriftasöfnuninni eða hæðast að henni. Þá sá ég ekki betur en býsna margir þeirra sem lögðu nafn sitt við listann væru alls ekki búsettir í sveitarfélaginu og hefðu því alls engan rétt til að krefjast eins eða neins í sambandi við stjórn bæjarins. Mér dytti til dæmis ekki í hug að mótmæla framkvæmdum við Kársnes, væri ég mótfallinn þeim, einfaldlega af því að ég er ekki búsettur í Kópavogi. Um Reykjavík gegnir að sumu leyti öðru máli, enda er hún höfuðborg okkar allra, en ég hef samt engan rétt til að fara fram á afsögn meirihluta borgarstjórnar ef mér líkar ekki það sem hún hefst að.
Ég treysti því að veitingamaðurinn hafi vinsað þetta fólk úr og að eftir standi 600 sammála, sjálfráða heimamenn.
Það er reyndar ekkert sérstaklega há tala ... er það?