Debbí rokkar

dharryÉg hef síðustu daga verið að sjúga inn í eyrun á mér nýtt lag með Deborah Harry, "Two Times Blue", sem er af væntanlegri sólóplötu hennar, "Necessary Evil". Mikið hlakka ég til að heyra allan gripinn þegar þar að kemur. Þetta lag er fínt - veldur trúlega engum straumhvörfum í sögu alþýðutónlistarinnar en er grípandi og tekur annað veifið óvænta stefnu. Auk þess hentar það rödd Harry afar vel. Harry virðist ekki hafa brugðið á það ráð að syngja gamla söngleikja- eða Gerschwinsmelli til að endurlífga feril sinn, eins og sumir tónlistarmenn sem komnir eru af allra léttasta skeiði, enda óþarfi. Debbie rokkar feitt.

Ég lét langþráðan draum rætast haustið 2005 og fór á tónleika með Blondie í Lundúnum. Það hafði lengi verið á stefnuskránni og ég varð ekki svikinn. En nú er Deborah Harry sem sagt að senda frá sér sólóplötu eftir 14 ára hlé - ef ég man rétt - og fyrsta lagið lofar góðu. Hinar plöturnar fjórar, "Koo-Koo", "Rockbird", "Def, Dumb & Blonde" og "Debravation" voru misjafnar, sú síðastnefnda seldist t.d. ekki vel og þótti almennt ekki merkileg afurð. Á öllum plötunum voru hins vegar góðir sprettir - ég vona bara að "Two Times Blue" sé ekki eini góði spretturinn á nýju plötunni.

Deborah Harry er 61 árs eða þar um bil - heimildum ber ekki saman um hvort hún er fædd 1945 eða 1946. Það skiptir heldur engu máli. Konan sem ég sá á sviði í Lundúnum haustið 2005 var, þrátt fyrir að vera kominn af æskuskeiði, mun hressari og betur á sig komin en stúlkan Britney Spears eins og hún blasti við sjónvarpsáhorfendum á MTV-hátíðinni um daginn. Aldur er sannarlega afstæður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband