16.9.2007 | 17:08
Góðir krakkar
Ég fór í sund í morgun, eins og ég geri gjarnan á sunnudögum, og leiðin lá að venju í Glerárlaug, litlu perluna sem kúrir milli Þórsvallarins og Glerárskóla. Þegar þangað kom var óvenjumikill mannfjöldi á staðnum og fékk ég þær upplýsingar að á Þórssvæðinu færi fram fótboltamót. Þar sem Glerárlaugin er lítil og hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í sturtum og klefum runnu á mig tvær grímur. Átti ég að snúa við og fara í Akureyrarlaugina eða láta mig hafa það?
Ég ákvað að fá mér sundsprett í Glerárlauginni og sé ekki eftir því. Þó að margt væri um manninn voru gestirnir, unglingar á að giska 12-15 ára, einstaklega ljúfir, þægilegir og tillitssamir. Þeir höfðu verið að keppa og voru að fá sér sundsprett og hlýja sér í pottinum (enda kalt í veðri) milli leikja. Ég spjallaði við nokkra drengi á leiðinni ofan í og upp úr og reyndust þeir hinir skemmtilegustu. Nokkrir þeirra voru merktir ungmennafélaginu Fjölni og geri ég ráð fyrir að þeir hafi allir verið liðsmenn þess. Ekki örlaði á frekju, yfirgangi, hávaða eða tillitsleysi. Mætti sumt fullorðið fólk taka sér þessa pilta til fyrirmyndar.
Þegar ég kom upp úr fór ég að hugsa um hvað unglingar eru í rauninni og upp til hópa gott fólk. Þetta fannst mér þegar ég kenndi í Gagnfræðaskólanum og vestur á Laugum í Sælingsdal og þetta finnst mér enn, þó að ég hafi minni tengsl við þennan aldurshóp nú en áður. Unglingar eiga skilið að komast oftar í fréttirnar fyrir allt það góða og gagnlega sem þeir leggja af mörkum til samfélagsins, en ekki bara þegar örfáir þeirra eru til vandræða eða missa dómgreindina. Margt fullorðið fólk er hálfhrætt við unglinga, enda geta þeir stundum verið svolítið fyrirferðarmiklir og hávaðasamir, en það er bara eðli þeirra. Unglingar eru gott fólk og skemmtilegt. Á það var ég minntur í dag.
Athugasemdir
Gaman að heyra þetta. Ég minnist þess að við á Laugum vorum einstaklega skemmtileg og gott fólk upp til hópa ;) og erum enn að sjálfsögðu :P
Letilufsa, 19.9.2007 kl. 07:21
Rakst á þig hérna á alheimsvefnum og þar sem ég er orðin svo yfirmáta kurteis verður ég að kvitta fyrir innlitið. Mikið er ég nú sammála síðastu athugasemd einstaklega skemmtilegt og gott fólk...reyndar mis uppátækjasöm en það er annað mál.
Inga Dóra (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 10:14
Sammála þér í þessu með unglingana, það má ekki stimpla alla unglinga eftir einhverjum örfáum:) Flestir eru þetta nú alveg hin bestu skinn....
Móðir, kona, sporðdreki:), 20.9.2007 kl. 09:40