20.9.2007 | 21:53
Skipt um barn
Í dag skiptum við hjónin um barn. Já, hann sonur okkar er orðinn stór og genginn úr vistinni svo að við tókum því með þökkum þegar okkur var boðin telpa í staðinn. Nú eigum við allt í einu tvo stráka og tvær stelpur, en ekki þrjá stráka og eina stelpu.
Og hvar er slíkan skiptimarkað með börn að finna? Er kannski eitthvað til sem heitir Barna- og unglingabúð Akureyrar? Eða fórum við kannski til einhvers þróunarlands, þar sem stúlkubörn eru óvelkomin, og keyptum okkur hnátu fyrir slikk?
Nei, það er engin slík dramatík á ferðinni hér. Hann Li- Quan Wang, SOS-drengurinn okkar í Kína, er orðinn stór, hefur kvatt þorpið sitt og er farinn að vinna í verksmiðju. Um þetta fengum við bréf frá höfuðstöðvum SOS-barnaþorpanna í dag. En fyrst Li-Quan ætlar nú að verða stór og standa á eigin fótum var okkur boðið að taka að okkur tíu ára gamla indverska telpu í staðinn. Hún heitir Tincy Teresa og er glaðleg og snjöll stelpa, af myndinni að dæma.
Auðvitað er það snjall leikur hjá SOS-barnaþorpunum að hafa þegar útvegað nýtt fósturbarn (og mynd) áður en það "gamla" kveður. Það er ákaflega erfitt að segja nei. Í okkar tilfelli stóð það reyndar aldrei til. Það hefur verið gaman að styrkja Li-Quan og gera honum kleift að njóta menntunar og umhyggju sem hann hefði annars tæpast fengið. Ég vona að SOS-þorpið hans í Kína sendi okkur nýtt heimilisfang hans, svo að við getum haldið sambandi við hann, kæri hann sig um það.
Og við hjónin hlökkum mikið til að kynnast henni Tincy. Hún Erna okkar er himinlifandi yfir að hafa loksins eignast systur og strákarnir eru spenntir fyrir "nýja" barninu líka. Þvílík blessun að svona "ættleiðing" skuli vera möguleg.
Athugasemdir
gott hjá ykkur og til hamingju með dótturina.
Þetta er bæði göfugt og gefandi og held ég að margt barnið hafi átt betri æsku vegna þessara þorpa, og auðvitað vegna þess að fullt af fólki, nú eins og þið, leggur mánaðarlega pening i uppihald þess.
ég keypti reyndar bara hænu handa ættingjum í jólagjöf núna síðast. en vonandi kom hún einhverri góðri fjölskyldu að góðum notum þarna suður í afríkunni.
arnar valgeirsson, 20.9.2007 kl. 23:10
Frábært hjá ykkur. Svona ætla ég að gera þegar ég er loksins búin með námið og farin að vinna mér inn péééning.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.9.2007 kl. 01:09