21.9.2007 | 11:54
Dularfulla eyjan, enn og aftur
"Bahamas eða Viðey?" stendur stórum og áberandi stöfum á heilsíðuauglýsingu Spron í dagblöðum í dag. Hjá mér er valið alls ekki einfalt. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um hvað þetta Bahamas er.
Eða hvað?
Jú, fyrir viku eða svo horfði ég reyndar á mynddisk með börnunum mínum þar sem þýðandinn minntist eitthvað á Bahamas-eyju.
Og nú er spurningin, af því að ég er farinn að ryðga í landafræðinni: Er Bahamas-eyja við Ísland? Trúlega þá nálægt Reykjavík, fyrst Spron lætur hennar getið í auglýsingum sínum. Eru eyjarnar á Kollafirði kannski fleiri en mig minnti?
Væri ég viðskiptavinur Spron veldi ég hiklaust Viðey, bara vegna þess að hana þekki ég. Ég hef meira að segja komið þangað.
Bahamas þekki ég hins vegar ekki og ég er alltaf soldið nervös við hið óþekkta ... Skyldi eyja þessi annars draga nafn sitt af Bahamaeyjum við austurströnd Flórídaríkis?