Nornabrengl

Í gærkvöldi horfði ég á Glæpinn (Forbrydelsen), mér til mikillar ánægju. Þessir þættir lofa sannarlega góðu, enda hafa þeir notið mikilla vinsælda í Danmörku og víðar. Sérstaklega hef ég gaman af því hvað Sofie Gråböl nýtur sín í hlutverki lögreglukonunnar Lund.

Í gær vakti sérkennileg þýðing þó svo mikla athygli mína að ég var í hálfgerðu losti lengi vel. Munaði minnstu að ég tapaði þræðinum fyrir vikið! Í þættinum barst í tal norn ein ágæt úr Andrésblöðunum, Maddama Mimm (Madam Mim), sem myndin er af hér til hliðar. Þýðandinn þýddi "Madam Mim" hins vegar sem "Hexía de Trix".

Hexía er allt önnur norn, mun illskeyttari og slægari en Mimm, sem alla jafna er dagfarsprúð, geðgóð og dálítið mistæk. Ég veit ekki af hverju þýðandinn kaus að fara þessa leið, en e.t.v. er vankunnáttu í Andrésfræðum um að kenna. Ef til vill er þýðandinn of ungur til að muna eftir dönsku Andrésblöðunum, en þar var Maddama Mimm tíður gestur.

Alla jafna skiptir svona nokkuð litlu máli. Norn er jú norn. En í samhengi þáttarins í gærkvöldi gæti það skipt býsna miklu hvort á ferðinni var Maddama Mimm eða Hexía de Trix. Það á eftir að koma í ljós.

Hvernig er annars hægt að fá vinnu við þýðingar úr dönsku án þess að vera sæmilega vel að sér í Andrési önd? Wounderingmim


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Já það er sko eins gott að vera vel að sér í Andrésandarfræðum.  :)

Eyjólfur Sturlaugsson, 22.10.2007 kl. 22:13

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband