25.10.2007 | 08:30
Spánn
Nokkurra daga hlé verður nú á bloggfærslu yðar einlægs þar sem hann er að hugsa um að skella sér í stutta Spánarferð eftir hádegi ásamt sinni ektakvinnu. Þetta verður í fyrsta skipti sem ég heimsæki Spán og þykir mörgum jafnöldrum mínum það merkilegur andsk... Ég er lítill sólstrandargæi og því stefnum við á höfuðborgina Madríd í fyrstu umferð.
Flogið er frá Akureyri og verður það óskaplegur munur, verði veður og vindar ekki til leiðinda og beini okkur suður til Keflavíkur. Ég hef einu sinni áður flogið beint utan frá Akureyri en það er langt síðan. Var þá mikið kraðak í litlu flugstöðinni okkar, en hún hefur verið stækkuð síðan og ætti því að vera óþarft að þjást af kremjuótta nú.
Ég hlakka til. Ferðin verður stutt en við erum ákveðin í að nota hana vel. Hvorki til stórinnkaupa né rútuflandurs, heldur bara til að lalla um, skoða hús og menn, njóta góðs matar og - jú, á laugardagskvöldið eigum við miða á tónleika með Van Morrison í einhverri geysistórri, nýrri íþrótta- og konserthöll. Það verður ekki leiðinlegt, það er ég viss um.
Amma barnanna verður hjá þeim á meðan og ég er sannfærður um að ekki munu leiðindin þjaka þau heldur.
Athugasemdir
maður segir nú bara góða ferð sko og góða skemmtun
arnar valgeirsson, 25.10.2007 kl. 23:26
Góða ferð
Einar Bragi Bragason., 30.10.2007 kl. 00:56