Ferðamálastjórar og aðþrengdar eiginkonur

Alveg er ég bit á því að ekki skuli hafa orðið meiri læti yfir ráðningu Ólafar Ýrar Atladóttur í starf ferðamálastjóra. Hvert er samhengið milli ferðamála og starfa fyrir Vísindasiðanefnd? Ólöf mun að vísu hafa unnið sem leiðsögumaður og landvörður um skeið og stýrt fyrirtæki á sviði ferðamála í Mývatnssveit, ef ég man rétt (forlátið mér ef ég fer rangt með) en þó að ég hafi dundað við dagskrárgerð fyrir útvarp í hjáverkum á árum áður myndi ég seint sækja um stöðu útvarpsstjóra - nema vera nokkuð viss um að fá djobbið, þ.e.a.s. vera í réttum stjórnmálaflokki og svoleiðis. Í hvaða flokki er Ólöf Ýrr? Mér sýnist gengið framhjá hverjum reynsluboltanum á fætur öðrum við þessa ráðningu, en hún virðist hafa fallið í skuggann af látunum í kringum aðra ráðningu, þ.e. ráðningu nýs orkumálastjóra. Ólöf Ýrr er án efa hin mætasta kona og ég er ekki í vafa um að hún hefur kosti til að bera sem ráðherra metur mikils og meira en kosti annarra umsækjenda, en gaman væri að vita hverjir þeir eru.

Ég gat ekki annað en brosað þegar ég sá rabbgrein forsprakka Lesbókar Morgunblaðsins í gær þar sem hann fjallaði um tvo sjónvarpsþætti, Glæpinn og Aðþrengdar eiginkonur. Ég er sammála Þresti Helgasyni hvað Glæpinn varðar, en botna ekkert í því að hann skuli ekki koma auga á sortahúmorinn í Aðþrengdum eiginkonum, þar sem Bandaríkjamenn gera stólpagrín að sjálfum sér, yfirborðsmennskunni, forgangsröðuninni og gildismatinu. Þröstur segir stílfærðan leikinn yfirgengilegan og dellukenndan þráðinn tilgerðarlegan. Það er nákvæmlega þetta sem olli því að þættirnir slógu í gegn! Bandaríkjamenn eru aldrei dásamlegri en þegar þeir hæðast að sjálfum sér og mig undrar að Þröstur skuli ekki koma auga á ískalt og kolsvart háðið í Aðþrengdum eiginkonum, sem beinist ekki síst að bandarískum sjónvarpsþáttum þar sem tilgerðin er svo sannarlega oft yfirgengileg. Þættirnir um eiginkonurnar eru að vísu aðeins farnir að vatnast út, en eiga enn frábæra spretti og persónurnar eru margar hverjar hreint dásamlegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband