Vonska

Í minni sveit var ekki til siðs að gera gys að veikindum fólks eða velta sér upp úr þeim.

Veikindi voru einkamál. Ég held að heimurinn hafi ekki breyst svo mikið að veikindi fólks séu hætt að vera einkamál. Ég vona ekki.

Menn mega tala um þau ef þeim sýnist, en það er dónaskapur að spyrja um þau, hvað þá að nota þau til að reyna að klekkja á fólki.

Ég óska Ólafi F. Magnússyni alls hins besta. Hann hefur vaxið mjög í mínum augum á síðustu dögum og vikum - meðan aðrir hafa orðið sér til verulegrar minnkunar.

Stjórnmál í Reykjavík koma mér annars ekki við ... ég gat bara ekki orða bundist. Hvað skyldu annars margir þeirra, sem urðu sér til skammar á áhorfendapöllunum í Ráðhúsinu um daginn, búa annars staðar en í Reykjavík?

Skyldi enginn utanbæjarmaður - Kópavogsbúi eða Seltirningur - hafa leynst á meðal þeirra?

Ég segi eins og Örn Arnarson, skáld og ömmubróðir minn, þegar hann gleymdi að slökkva í pípunni sinni áður en hann stakk henni í vasann og ungur maður benti honum á að það væri kviknað í yfirhöfninni hans:

"Hvað kemur það þér við þótt minn jakki brenni?"

Reykjavík er ekki að brenna. En einn góðan veðurdag hlýtur að koma að því að þeir, sem ganga of langt brenni sig.

Annað er óhugsandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband