4.2.2008 | 09:16
Hábölvuð kvöld
Sunnudagskvöld eru að verða bagalega góð sjónvarpskvöld. Ríkissjónvarpið sýnir frábæra danska þáttaröð, Glæpinn, og í gærkvöldi sýndi það svo eina af mínum eftirlætismyndum, Bagdad Café. Óborganleg. Marianne Sägebrecht, Jack Palance og CCH Pounder öll hreint dásamleg í hlutverkum sínum og hugmyndin (að planta Bæjarafrú í tilheyrandi klæðnaði niður í bandarískri eyðimörk) geggjuð. Tók myndina upp og ætla að horfa á hana (enn á ný) við fyrsta tækifæri.
Svo kom hann Dexter, vinur minn. Með betri þáttum bandarískum sem hér hafa sést upp á síðkastið. Ég fæ samt alltaf samviskubit yfir að halda með helsjúkum fjöldamorðingja - bót í máli að illþýðið sem hann myrðir er mannsorp eins og það gerist verst. Það er líka bót í máli að allt er þetta í plati ...
Miðvikudagskvöld eru að verða erfið líka. Ég hef lúmskt gaman af hinni ófríðu Bettý, einkum stórkostlegum aukapersónunum. Judith Light stelur senunni í hvert skipti sem hún birtist og er enn betri en í Who's The Boss? forðum. Strax á eftir kemur svo einn kostulegasti karakter sem ég hef séð lengi, Doc Martin. Martin Clunes er yndislegur í hlutverkinu og þar er einnig gnægð aukapersóna.
Ég get alltaf hallað mér að DR, BBC og fleiri góðum stöðvum þegar illa árar á Sjónvarpinu og Skjá einum, en með þessu áframhaldi verður áhorfið á erlendu stöðvarnar lítið þegar fram í sækir. Og hreyfigetan engin á kvöldin!