4.2.2008 | 17:45
Góðar Hetjur
Mikið er ánægjulegt hvað sýningin Hetjur fær góða dóma. Ég var svo lánsamur að sjá Hetjurnar á sviði í Lundúnum fyrir tveimur eða þremur árum. Í aðalhlutverkum voru John Hurt og Richard Griffiths en þriðji aðalleikarinn, Ken Stott ("Rebus") var veikur og ekki man ég hvað leikarinn hét sem fyllti skarð hans. Það var ógleymanlegt að sitja á fjórða bekk í leikhúsi og hafa meistara á borð við Hurt og Griffiths svo að segja í seilingarfjarlægð. Stórleikarar - Griffiths reyndar í fleiri en einum skilningi!
Ég er viss um að Sigurður Skúlason, Theodór Júlíusson og Guðmundur Ólafsson eru ekki síðri. Og verkið svíkur sannarlega engan. Ljúft og létt leikrit sem kemur manni í gott skap.
Athugasemdir
Já og ég get staðfest þessa dóma og mæli eindregið með Hetjum í Borgó. Var á forsýningu ásamt dóttur minni sem er 17 ára og henni fannst líka gaman. Hér er það textinn sem skiptir máli, góð og einföld saga með mjög sterkum persónum. Sigurður Skúlason vinnur hér leiksigur, er alltaf góður en hér toppar hann sko sjálfan sig og vel það.
Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 19:02