11.2.2008 | 19:11
Rjóður af skömm
Það hlaut að koma að því að blessaðir Pólverjarnir fengju að finna fyrir drambinu og fávísinni í undirmálslýðnum sem hér hefur hokrað í ellefu hundruð ár og þykist nú allt í einu vera eitthvað, bara af því að hann getur sveiflað kreditkortum og búið til heimasíður.
Fyrir kemur að ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur, en aldrei fyrirverð ég mig eins mikið og þegar ég les fréttir af fordómum sumra okkar í garð annarra þjóða - sem eru vitaskuld byggðir á vanþekkingu, kjánaskap og minnimáttarkennd.
Pólverjar eru stolt þjóð með merka sögu og menningu. Hið sama á við um fjölmargar aðrar þjóðir - sjálfsagt allar, ef út í það er farið. Sýnum þeim, sem hingað koma, virðingu og gleðjumst yfir því að þeir vilja lifa hér og starfa með okkur.
Athugasemdir
algjörlega sammála þér - enda hef ég oft orðið rjóð í kinnum af skömm - þegar Íslendingar þykjast vera betri en aðrir- úff
Guðrún Vala Elísdóttir, 14.2.2008 kl. 00:05