Lagt við hlustir í heimsborginni

Alltaf finnst mér gaman að heimsækja ríki Engla og Saxa, ekki síst sjálfa höfuðborg breska heimsveldisins. Þar var ég um helgina á ráðstefnu um norrænar þýðingar, sem var að mörgu leyti ágæt. Ekki áttum við Íslendingar marga fulltrúa þar en þó leit Sigurjón Sigurðsson inn og einnig var stuttlega fjallað um viðhorf Halldórs Laxness til þýðinga á verkum sínum og um vandamál við þýðingu dróttkvæða. Skemmtilegust var umfjöllun reynds og virts ensks þýðanda, Geoffrey Samuelsson-Brown, um það sem þýðendur eiga að gera og það sem þeir mega ekki gera. Viðhorf bókaútgefenda til norrænna bókmennta var líka mjög forvitnilegt, sem og fyrirlestur um misjafnlega vel heppnaðar þýðingar á verkum Ibsens.

Á föstudagskvöldið leit ég inn á Borderline í Sóhó, einn minnsta hljómleikasal sem ég hef heimsótt, og hlustaði á Matt Schofield Trio spila stórkostlega blöndu af djassi, blús, fönki og rokki. Schofield er ungur að árum en hefur þegar getið sér orð sem einn af mögnuðustu gítarleikurum samtímans og félagar hans eru ekki af verri endanum heldur. Trymbillinn bráðsnjall og orgelleikarinn, Jonny Henderson, lék sér að því að spila bassann með vinstri og taka sóló með hægri. Sannarlega eftirminnileg kvöldstund og ég á áreiðanlega eftir að fylgjast með Schofield og félögum í framtíðinni.

Á sunnudagskvöldið fór ég í London Palladium-leikhúsið, sem er stórt, gamalt og gullfallegt, og hlustaði á írsku þjóðlagapoppsveitina Clannad. Ég hef aldrei gefið henni mikinn gaum en var þó á sínum tíma mjög hrifinn af laginu "Closer To Your Heart". Clannad brást ekki vonum mínum og flutti lagið undir lokin. Brian Kennedy söng með þeim lagið "In A Lifetime" og gerði það afar vel.

Tónleikarnir voru miklu betri og skemmtilegri en ég átti von á, því að sannast sagna var ég ofurlítið efins um að tónlistin væri að mínu skapi og e.t.v. fullróleg fyrir minn smekk. Þetta reyndust að sjálfsögðu fordómar af verstu sort. Fjórmenningunum til fulltingis var fjöldi snjallra hljóðfæraleikara og söngvara og tónleikarnir voru tvímælalaust í hópi þeirra betri sem ég hef sótt um dagana. Ég held að engin hljómsveit blandi jafn snilldarlega saman keltneskri þjóðlagahefð og engilsaxnesku léttrokki. Húrra fyrir Clannad.

Á heimleiðinni varð ég fyrir nokkrum töfum vegna slæms veðurs (sem á Íslandi teldist vart meira en skítaveður í meðallagi), en komst þó á Stansted vel fyrir brottfarartíma. Ekki voru allir svo heppnir og af tali manna heyrði ég að sumir höfðu lent í verulegum ævintýrum á leiðinni á flugvöllinn. Þakklátur varð ég að hafa ekki lent í þeim hópi.

Er þegar farinn að hlakka til næstu ferðar, hvenær sem hún verður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband