13.3.2008 | 20:38
Salt og/eða sandur
Stundum er eins og Akureyringar séu fastir í gamla tímanum, líklega á sjöunda eða áttunda áratugnum þegar SÍS og KEA réðu ríkjum í bænum og templarar voru stórtækir bíó- og hótelrekendur.
Umræðan um hálkuvarnir í bænum er eldgömul og hefur lítið breyst í áranna rás. "Salt" er þvílíkt hryllingsorð í eyrum sumra bæjarbúa - og brottfluttra líka, því að þeir láta stundum hærra en heimamenn - að halda mætti að um kjarnorkuúrgang væri að ræða. Menn gleyma því stundum að sandur fýkur og stíflar niðurföll. Og salt skemmir ekki skó eða bíla ef vel er um hvort tveggja hugsað. Fáir kunna reyndar betur að hugsa um bílana sína en Akureyringar.
Í Mogganum í dag er klausa eftir framhaldsskólakennara á Akureyri þar sem hann telur að betri sandur og bætt götuhreinsun yrðu mjög til bóta. Ég er hjartanlega sammála. Hins vegar er ég ósammála honum um að sandaustur án salts yrði hér eftir, sem hingað til, einhvers konar allra meina bót.
Akureyri hefur stækkað mjög á síðustu árum. Þungaflutningar til bæjarins og um bæinn hafa aukist óskaplega. Gríðarstórir vörubílar, hlaðnir grjóti, möl eða sandi, eru á ferðinni um allan bæ. Þegar sjóflutningar lögðust af jukust landflutningar að sama skapi og þeir bílar eru heldur engin smásmíði. Halda menn að þetta hafi ekkert að segja þegar svifrykið er annars vegar? Eigandi dekkjaverkstæðis hér í bæ heldur því fram að malbikið sé lélegra nú en áður fyrr og það sé ein orsök svifryksins. Ég hallast að því að hann hafi talsvert til síns máls.
Það er ekki sandurinn, sem veldur svifrykinu, heldur ökutækin. Og til að draga úr mengun af völdum ökutækja er langbesta leiðin sú að nota strætisvagna, hjóla eða ganga. Þannig getur almenningur lagt sitt af mörkum. Það þýðir lítið að tuða yfir svifrykinu og halda bara áfram að fara allra sinna ferða á bíl. Enn eru vegalengdir á Akureyri ekki svo óyfirstíganlegar að þær afsaki hömlulausa bílanotkun bæjarbúa. Meira að segja ógnarhátt og síhækkandi eldsneytisverð virðist ekki megna að koma í veg fyrir að Akureyringar fari milli húsa á bíl, hér eftir sem hingað til. Og svo í ræktina í dagslok - auðvitað á bílnum!
En til að strætó komist leiðar sinnar þurfa leiðir að vera greiðar. Og sandurinn nægir bara ekki lengur til þess. Því miður. Ég held að það nægi ekki að fá fína kústa til að sópa göturnar. Það þarf hugarfarsbreytingu. Og þangað til hún á sér stað sé ég ekki annan kost en að halda áfram að setja salt í sandinn en fara eins sparlega með hvort tveggja og kostur er.
Það er ekki sanngjarnt að gera lítið úr viðleitni Akureyrarbæjar til að minnka svifryk, hvað þá að kalla hana hlægilega. Akureyarbær steig stórt skref í rétta átt þegar hann fór að bjóða upp á ókeypis strætisvagnaferðir. En til þess að það skref skili sér þurfa Akureyringar að nota strætisvagnana. Líka framhaldsskólakennarar.