Konur beri eyrnalokka

Í einhverju blaðanna í dag sá ég klausu þar sem dómstjóri nokkur kvartar undan því að karlkyns lögmenn séu, sumir hverjir, hættir að bera hálstau.

Þetta er ljóta vitleysan. Ég hef aldrei skilið af hverju "snyrtilegur klæðnaður" karlmanna felur í sér að þeir þurfi að lufsast um með hálstau. Þau þjóna engum tilgangi og eru vita gagnslaus, hvernig sem á málið er litið. Helst að bindin komi að notum við að hræra í súpunni þegar þjónninn gleymir að færa manni skeið eða þegar mann langar til að kyrkja eitthvert karlkyns merkikertið.

Fræg urðu lætin á Alþingi þegar Hlynur Hallsson þrjóskaðist við að bera bindi. Það var engu líkara en piltur hefði neitað að vera í buxum eða viljað trítla um þingsali í gúmmístígvélum einum fata.

Dómstjórinn segir að konur í lögmannastétt séu miklu duglegri við að klæða sig "snyrtilega". En hver er þá snyrtilegur klæðnaður kvenna? Kjóll? Nei, sumar eru í dragt. Hattur? Varla.

Hér með legg ég til að konur í lögmannastétt og á Alþingi verði skyldaðar til að bera eyrnalokka. Þeir eru ámóta tilgangslausir og bindin og oft álíka ósmekklegir. Verði konur neyddar til að bera eyrnaglingur tel ég að viðunandi jafnrétti sé náð í bili, a.m.k. þangað til einhver hefur þor til að afnema bindi(s)skyldu karlmanna á "fínum" vettvangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Helgi minn, veistu ekki hversu kynæsandi karlmenn eru þegar þeir eru komnir í jakkaföt og búnir að setja á sig bindi? Ég veit alla vega að ég kikna í hnjánum þegar ég sé þá og bindislausir karlmenn standa þeim langt að baki. Það er kannski óþarfi að skikka menn til þessa en ef þeir vilja vekja athygli kvenna þá er bindið algjör gullnáma.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.3.2008 kl. 03:45

2 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Það er ekki satt Helgi að bindi séu " vita gagnlaus".  Ég nota bindi daglega í minni vinnu og talsverða reynslu.  Þau koma oft ótrúlega að gagni:

a) Þau virka alveg eins og smekkir.  Taka við öllu "mauli" og "smjatt slysum" sem verða þegar ég borða. Hafa talsverða rakadrægni og hlífa skyrtum óaðfinnanlega.

b) Sem tissjú,  (þá notar maður grennri endan, sem er undir þeim breiðari) virka þau ágætlega til að pússa gleraugu og hreinsa bletti framan úr ungum börnum.

c) Sem sárabindi ef óhapp kemur upp.  Einu sinni gerst hjá mér.

og svo mætti lengi telja.

Reyndar verð ég að segja að gagnsemin sem Kristín talar upp...hef ég bara ekki tekið eftir...hélt alltaf að það væri kassinn.

kv.

ES

Eyjólfur Sturlaugsson, 16.3.2008 kl. 22:44

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband