23.3.2008 | 17:06
Fló
Í gærkvöldi sáum við hjónakornin loksins Fló á skinni í Samkomuhúsinu á Akureyri. Við gátum ekki notað frumsýningarmiðana okkar á sínum tíma og svo var bara uppselt og uppselt ... en það var alveg þess virði að bíða. Raunar varð ég fyrir ofurlitlum vonbrigðum, sennilega af því að svo margir höfðu dásamað sýninguna og ekki átt nógu sterk orð til að lýsa henni. Þetta er hvorki besti farsi sem ég hef séð né skemmtilegasta sýningin. En ég skemmti mér engu að síður konunglega.
Það var gaman að sjá Aðalstein Bergdal aftur á fjölum Samkomuhússins og sömuleiðis þau Margréti Helgu Jóhannsdóttur og Randver frænda minn Þorláksson. Þetta eru frábærlega færir leikarar. Hin eru það auðvitað líka, en það er eins og fyrirhöfnin hjá hinum reyndu leikurum sé engin. Í því liggur m.a. snilld þeirra.
Þó að ég hafi sagt hér að ofan að sýningin hafi valdið mér eilitlum vonbrigðum - svona eins og Óskarsverðlaunamyndir sem almenningur og gagnrýnendur hafa lofsungið svo mjög að maður á helst von á kraftaverki - er hún sannarlega kvöldstundarinnar virði.
Athugasemdir
það hefur verið ótrúlegur uppgangur hjá l.a. að undanförnu og þó maður muni nú eftir leikhúsáhuga norðanmanna, er þetta engu líkt.
en þó flóin sé fín, þannig lagað, er nú margt annað sem mig hefur meira langað til að sjá...
arnar valgeirsson, 24.3.2008 kl. 12:34
Ég kannast við þetta alltaf erfitt að fara að sjá eitthvað sem maður er búinn að heyra alltof mikið gott um - hef ekki séð þessa uppfærslu en sá hins vegar þegar Flóin var leikin í Borgó fyrir nokkrum árum og fannst nú ekki mikið til koma - en það eru svo margar leiðir að hverju verki og það er einmitt galdurinn leikhússins
Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 15:30