10.4.2008 | 20:04
Mislukkuð viðtalstækni
Ég var að horfa/hlusta á viðtal Sigmars við Kristján Möller á RÚV áðan en skipti um rás áður en viðtalinu var lokið. Var orðinn svo gáttaður á framkomu spyrilsins gagnvart ráðherranum að ég afbar ekki að horfa á ósköpin. Kristján sýndi aðdáunarverða kurteisi og rósemi þótt hann fengi varla að ljúka einni einustu setningu fyrir framígripum Sigmars, sem virtist halda að hann væri staddur í hraðaspurningunum í Gettu betur.
Fyrir bragðið fór þetta viðtal fyrir ofan garð og neðan. Samgönguráðherra fékk nær aldrei að ljúka máli sínu og gafst ekki tækifæri til að segja margt. Maður er svo sem vanur alls kyns framíköllum frá ódönnuðum þingmönnum í sjónvarps- (og þing-) sal, en svona viðtalstækni spyrils skilar engum árangri. Hún gerir fátt annað en pirra áhorfandann og draga úr Kastljóssáhorfi hans.
Aðgangsharka er stundum nauðsynleg, en mannasiðirnir þurfa að fá að fljóta með til að slík harka skili einhverjum árangri.
Athugasemdir
sammála niðurlagi en sá ekki þáttinn og ekki dómbær. sigmar fékk nú einhverntíma smá ákúrur fyrir hörku og róaði sig en greinilega komin einhver gremja í drenginn aftur.
hann á þó marga góða spretti líka.
arnar valgeirsson, 10.4.2008 kl. 23:52
Það er til lítils að spyrja ef mönnum er ekki gefinn kostur á að svara!
Helgi Már Barðason, 11.4.2008 kl. 08:56