Eru blaðurmennin lýðskrumarar?

Blaðurmenni ýmiss konar hafa lengi vaðið uppi á síðum dagblaðanna á Íslandi. Sum hafa verið nafnlaus, t.d. Staksteinar, Svarthöfði og Dagfari, en önnur skrifa undir nafni. Dálkarnir hafa heitið ýmislegt, s.s. Bakþankar, Kjallarinn, Í dag, o.s.frv. Sú var tíðin að mér fannst oft gaman að lesa klausur þessara blaðurmenna - ég hef enn ekki fundið neitt skárra orð yfir þau - og hlusta á þau í sjónvarpi og útvarpi þegar þau hafa verið kölluð til svonefndar álitsgjafar í þessum miðlum, en sú tíð er liðin. Ég uppgötvaði nefnilega að blaðurmennin voru ótrúlega oft sammála hinum neikvæðu röddum í þjóðfélaginu - röddum sem dæma hart og snarlega og hafa lítið fyrir því að kynna sér málin, enda gæti þá komið í ljós allt önnur niðurstaða.

Eru blaðurmennin lýðskrumarar? Ég held það. Þau þjást af Dabbahatri, ríkisstjórnaróþoli, kirkjuofnæmi og ýmsum fleiri sjúkdómum sem ýmsir háværir gasprarar hafa lengi neitað að leita sér lækninga við. Þau eru til dæmis sammála um að slysin á Reykjanesbraut séu samgönguráðherra að kenna, að ímynduð óáran í íslensku efnahagslífi (hvar er sú óáran annars staðar en meðal spekúlanta?) sé Seðlabankastjóra og forsætisráðherra að kenna (og Hannesi Hólmsteini, sem hefur það til saka unnið - ásamt svo mörgu öðru - að sitja í bankaráði), að ástæðan fyrir breytingunum sem dómsmálaráðherra vill gera á Keflavíkurflugvelli sé persónuleg óvild hans í garð sýslumanns, jafnvel þótt ráðherrann hafi vandlega útskýrt hvert hann telji meinið vera þar um slóðir ... og svo framvegis. Aðeins Umferðarstofa þorir að nefna að hugsanlega geti ógætilegur akstur ökumanna verið orsök einhverra slysa! Og nú fá ráðamenn á baukinn hjá lýðskrumurunum fyrir að ætla að mæta við opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Kína. Væri það nú ekki meiri hræsnin ef við settum upp á okkur stýri og neituðum að fara þangað? Enn meiri hræsni en að bjóða trukkabílstjórum í nefið fyrir að brjóta lög en handtaka Falun Gong-menn fyrir að vera til?

Lýðskrumararnir í fjölmiðlunum tóku margir hverjir undir mótmælaaðgerðir trukkabílstjóra - og jeppakarla - þangað til þeir fundu að samúðin með þeim var að hverfa. Þá snerist dæmið við, enda eru blaðurmennin jafnan sammála þeirri rödd þjóðarinnar sem hæst hefur, þótt fáir reynist ef til vill vera í þeim kór við nánari athugun. Þau benda sjaldnast á mein heldur velta sér upp úr þeim, raunverulegum og ímynduðum, þangað til þau skynja að fólk hefur ekki áhuga á þeim lengur. Stundum bregst þó lýðskrumurunum bogalistin. Einn þeirra hefur til dæmis enn ekki uppgötvað (eða neitar að viðurkenna) að enginn nema hann hefur áhuga á Davíð Oddssyni lengur.

Kannski þjáist ég af blaðurmennaóþoli? Það skyldi þó aldrei vera. Hver skyldi fást við að meðhöndla slíkt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband