19.4.2008 | 17:41
Þýðendur eru þýðendum verstir
Í ár ber svo við að í staðinn fyrir að þýðendur tilnefni sjálfir bækur til þýðingaverðlauna ársins er það dómnefnd sem gerir það. Hvaða forsendur dómnefndin hefur til að tilnefnda þessar bækur veit ég ekki. Varla er henni gert að lesa hverja einustu bók sem út kemur á árinu - eða hvað?
Með þessu eru Íslensku þýðingaverðlaunin orðin marklaus. Eign fárra einstaklinga. Enn frekar hátíð fárra útvalinna snobbara en áður. Dómnefnd (skipuð þremur einstaklingum, ef ég man rétt) getur ekki tilnefnt bækur til þýðingaverðlauna. Hver tekur svo ákvörðun um verðlaunabókina? Dómnefndin? Eða er hún þegar búin að velja verðlaunabókina og nefnir bara nokkrar í viðbót til að reyna að búa til einhverja spennu?
Auðvitað eiga þýðendur sjálfir að tilnefna bækur til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Allir þýðendur, a.m.k. allir þeir sem vilja, geta og telja sig færa um. Þó að ekki sé allt gott í henni Hollywood hafa þarlendir þó vit á að hrófla ekki við tilnefningakerfinu sem þar hefur verið notað lengi, a.m.k. ekki að neinu ráði. Ef einhverjir aðrir en þeir sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum ættu að fara að tilnefna til Óskarsverðlauna myndu sennilega hreppa hnossið einhverjar myndir sem enginn hefur heyrt um, hvað þá séð.
Tilnefningarnar í ár renna enn frekari stoðum undir grun minn um að þar sé farið eftir höfundum og þýðendum fremur en þýðingum. Það er sem sagt gott að hafa þýtt norskt stórskáld og gott fyrir þýðanda að vera þekktur rithöfundur. Að minnsta kosti eitt dæmi er um fúsk í tilnefningunum nú, að mati ágæta vina minna sem þær hafa stúderað. Kunningi minn, sprenglærður í norsku og víðlesinn í bókmenntum þarlendra, segir mér t.d. að þýðingin á umræddri bók sé miðlungsvel gerð, kannski rétt rúmlega það. Ekkert meira. Þessi kunningi minn er ekki maður stórra orða og því hef ég tilhneigingu til að trúa honum. Um þýðinguna get ég ekki dæmt sjálfur þar eð ég kann ekki norsku. Kunningi minn hefur reyndar efasemdir um að þýðandinn kunni norsku nema sæmilega.
Skyldi þetta vera eina dæmið um miðlungsþýðingu sem er tilnefnd af því að höfundurinn var þekktur og þýðandinn þykir gott skáld? Er endilega víst að góðir rithöfundar séu góðir þýðendur? Halldór Laxness var góður rithöfundur (mistækur eins og aðrir) en var hann góður þýðandi? Ekki finnst öllum það.
Ég efast ekki um að þýðendurnir sem tilnefndir eru í ár séu yfirleitt allvel að tilnefningu komnir. Hins vegar veit ég að margar afburðaþýðingar eru ekki tilnefndar nú og það er engin ný bóla. Þegar góð þýðing er ekki tilnefnd en miðlungsþýðing á greiða leið inn á borð dómnefndar (sem hefði, að mínu mati, átt að hafna þessu hlutverki og vísa því til þýðenda almennt) eru ástæðurnar eflaust nokkrar. Kannski er þýðandinn ekki nógu fínn pappír. Kannski er höfundurinn ekki nógu fínn pappír. Kannski þekkja dómnefndarmennirnir ekki verkið. Kannski þekkja dómnefndarmennirnir ekki höfundinn.
Eflaust halda einhverjir að ég sé bara sár yfir því að þýðing mín skyldi ekki tilnefnd. Svo er ekki. Ég er hins vegar afar sár yfir því að þýðingin hafi aldrei átt möguleika á að vera tilnefnd. Og ég er alveg hundrað prósent viss um að ég er ekki eini þýðandinn sem er ósáttur við að hafa verið utan myndar frá upphafi.
Nýupptekið fyrirkomulag á tilnefningum er móðgun við þýðendur. Þeir hafa haft mikið fyrir því að vekja athygli á störfum sínum og list á síðustu árum en nú stefnir hraðbyri í að yfirstétt þýðenda komi sér svo makindalega fyrir að enginn eigi möguleika á frama í heimi þýðinganna nema með þeirra velþóknun.
Íslensku þýðingaverðlaunin eru að verða hálfgerður kjánaleikur fyrir snobbhænsn. Það þykir mér slæmt. Nóg er af slíku í heimi lista og menningar þó að þýðendur api það ekki eftir. Það hefur verið stolt okkar þýðenda að við höfum sjálfir tilnefnt verðlaunabækurnar. Við megum ekki við því að einhver sjálfskipuð elíta þykist þess umkomin að segja okkur hvað er gott og hvað ekki, ekki síst þegar forsendurnar eru vægast sagt hæpnar.