5.5.2008 | 14:32
Upp, upp mín sál
Alltaf þykir mér gaman að því þegar frábærir listamenn, sem ef til vill hafa "afvegaleiðst" um skeið, snúa aftur og það með slíkum krafti að eftir er tekið. Ég hlakka til dæmis til að sjá Robert Downey Jr. í nýju myndinni, þó að ég sé ekkert tiltakanlega hrifinn af hasarmyndum í teiknimyndastíl. Downey hefur sannarlega fengið uppreisn æru, enda afbragðsleikari, og gott að hann skuli vera laus við Bakkus og leiguþý hans.
Á spilaranum hér á síðunni er splunkunýtt lag með gamla jöfrinum Neil Diamond. Fyrir einu eða tveimur árum gaf hann út plötuna 12 Songs, sem markaði nokkurs konar nýtt upphaf hjá þessum ágæta tónlistarmanni. Upptökustjórinn Rick Rubin sannfærði hann um að það væri farsælla fyrir hann að snúa aftur til upphafsins - einfaldleikans - í stað þess að halda áfram að semja miðlungslög, klædd í alltof miklar umbúðir. Þetta gerði Diamond, enda var einfaldleikinn það sem gerði hann frægan á sínum tíma - einfaldar laglínur, einfaldar útsetningar, auðskildir textar. Árangurinn lét ekki á sér standa og 12 Songs er að flestra mati í hópi allra bestu verka Diamonds.
Nú er að koma út ný plata, gott ef útgáfudagurinn er ekki bara 6. maí. Ég hef ekkert heyrt af henni nema þetta eina lag, "Pretty Amazing Grace", og það lofar sannarlega góðu. Vona að Diamond haldi sig við einfaldleikann. "Hafðu það einfalt" er gott ráð sem sjaldan bregst.
Neil Diamond er nýbúinn að vera "mentor" í American Idol. Gott ef sá þáttur er ekki bara sýndur í kvöld? Ég er ekki með Stöð 2 svo að ég fylgist ekki svo grannt með Idolinu, en sá þó þáttinn með Dolly Parton um daginn og hafði gaman af.
Á spilaranum er líka nýr singull frá Deborah Harry af plötunni hennar, Necessary Evil. Ágætislag. Gaman þegar svona reyndir jaxlar eins og Debbie og Neil eru að gera góða hluti. Oft er það nefnilega gott sem gamlir kveða ... eða þannig.
Hvorki Neil Diamond né Deborah Harry fá þó líklega inni í nýjum vikulegum útvarpsþætti sem ég verð með á Rás 1 í sumar. Þar verður á ferðinni svona alls kyns "easy-listening"-tónlist í bland við djass, blús og létt popp og fyrsti þátturinn verður líklega helgaður þeim Dinah Washington og Brook Benton. Hlakka til að fást við þetta og vona að einhverjir nenni að hlusta!